Þórður Guðjónsson verður í landsliðshópi Atla Eðvaldssonar fyrir æfingaleikinn gegn Eistlandi í Tallin 20.Nóvember n.k. Þórður hefur verið úti í kuldanum hjá Atla þrátt fyrir að hafa verið að spila mjög vel með Bochum í þýsku Bundesligunni. Bræður Þórðar, Bjarni og Jóhannes Karl verða einnig kallaðir í hópinn sem hefur þó ekki enn verið opinberlega tilkynntur en þetta er í fyrsta skipti í 39 ár sem 3 bræður eru í íslenskum landsliðshópi. Það voru gömlu KR-ingarnir Hörður, Bjarni og Gunnar Felixsynir sem voru saman í landsliðinu 1963.
Atli var harðlega gagnrýndur fyrir val sitt á landsliðinu en virðist haf séð ljósið því hann velur einnig markahrókinn Tryggva Guðmundsson og Arnar Grétarsson sem hefur spilað fantavel með Lokeren í Belgíu að undanförnu. Þá verður Pétur Marteinsson einnig í liðinu og Lárus Orri Sigurðsson hefur tekið þá ákvörðun að gefa kost á sér á ný en eins og kunnugt er dró hann sig úr hópnum fyrir leikinn gegn Litháum vegna agabrots. Það var Morgunblaðið sem greindi frá þessu eftir að hafa fengið staðfestingu á þessu hjá liðum leikmannanna erlendis en listinn yfir liðið sem Atli velur verður væntanlega kynntur innan skamms.