Héðan og þaðan Bjarnólfur Lárusson mun leika áfram með ÍBV en hann gekk um helgina frá nýjum tveggja ára samningi við Eyjamenn. Að sögn forráðamanna ÍBV eru samningamál leikmanna vel á veg komin og allt útlit er fyrir að flestir leikmenn, sem léku með liðinu í sumar, verði með á næstu leiktíð en þó er vitað að Hlynur Stefánsson hefur lagt skóna á hilluna og líklega einnig Ingi Sigurðsson. Þá hefur ÍBV verið í viðræðum við KR-inginn Tryggva Bjarnason sem er efnilegur varnarjaxl.



Marel Baldvinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gæti orðið leikmaður þýska liðsins Nurnberg á næstu dögum. Mikill líkamsstyrkur Marels og boltatækni freistar liðsins sem er undir stjórn Klaus Augenthaler. Víst er að bjargföst trú landsliðsþjálfara Íslands á Marel skemmir ekki fyrir.



Brann og Sandefjord skildu jöfn 0-0 á laugardag á heimavelli Sandefjord í leik um laust sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð en Brann endaði í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar í haust en Sandafjord í þriðja sæti 1. deildar. Ármann Smári kom inn á hjá Brann á 51. mínútu. Teitur Þórðarson er þjálfari Brann og ríkir gríðarleg spenna í heimabæ liðsins fyrir síðari leik liðanna sem fer fram í Bergen á morgun. Teitur segir í viðtali við Verdens Gang að honum þyki ekki ólíklegt að einhverjir krefjist þess að hann fari frá liðinu ef það falli í 1. deild, en hins vegar verði hann ekki sá sem muni segja af sér að fyrra bragði.



Jóhannes Karl Guðjónsson segir mjög líklegt að hann yfirgefi herbúðir spænska 1. deildarliðsins Real Betis þegar leikmannamarkaðurinn verður opnaður á nýjan leik í janúar. Real Betis keypti Jóhannes frá hollenska liðinu Waalwijk fyrir rúmu ári fyrir 350 milljónir króna. Hann fékk að spreyta sig töluvert með liðinu á sínu fyrsta ári en eftir að nýr þjálfari tók við liðinu fyrir tímabilið hefur hann ekkert komið við sögu á yfirstandandi tímabili.



Stjórnir knattspyrnufélaga Grindavíkur og Þórs frá Akureyri hafa komist að samkomulagi um að varnarmaðurinn Óðinn Árnason gangi til liðs við Grindavík á næstu leiktíð. Óðinn er 23 ára gamall og lék 15 deildarleiki með Þór á liðnu sumri en félagið féll sem kunnugt er í 1. deild. Óðinn, sem hefur æft með Bröndby í Danmörku, hefur leikið alla sína tíð með Akureyrarliðinu mun gera samning við Grindavík til þriggja ára. Þá hafa heyrst sögusagnir þessa efnið að markvörðurinn Albert Sævarsson sé að fara að hætta hjá Grindvíkingum og líklegt sé að enginn annar en Ólafur Gottskálksson muni veja mark þeirra næsta sumar… þetta verður bara að koma í ljós.



Róbert Skarphéðinsson, knattspyrnumaður úr KA, er genginn til liðs við 2. deildarlið Völsungs. Róbert, sem er 28 ára og lék 10 leiki með KA í úrvalsdeildinni í sumar, er frá Húsavík og lék með Völsungi fyrir nokkrum árum.