Kristinn Tómasson í Fram Sóknarmaðurinn Kristinn Tómasson úr Fylki hefur skrifað undir samning við Fram og bætist í leikmannahóp Safamýrarpilta. Kristinn er 30 ára gamall og lék aðeins 11 leiki fyrir Fylkisliðið í sumar og var að vonum óhress með fá tækifæri, þrátt fyrir góða frammistöðu. Kristinn er uppalinn hjá Fylki og er eftirminnilegt mark sem hann skoraði gegn FH í lokaumferðinni 1989 og tryggði Fylki sigur á FH. Fylkismenn voru fallni fyrir leikinn en FH sat í efsta sætinu. Þetta mark hans gerði vonir FH um íslandsmeistaratitil að engu og KA urðu meistarar. Þarna var Kristinn aðeins 17 ára gamall.

Kristinn er annar liðsmaðurinn sem bætist í leikmannahóp Fram, en varnarmaðurinn Ragnar Árnason úr Stjörnunni, skrifaði nýverið undir samning við liðið. Samkvæmt Fram.is þá má bráðlega búast við frekari tíðindum úr herbúðum Fram, en unnið er að því bak við tjöldin að styrkja leikmannahóp liðsins enn frekar.