Alexander Scriabin var af aðalsættum í Moskvu og var bráðþroska og sjálfselskt barn. Eftir níu ára vist í Liðsforingjaskólanum í Moskvu, þar sem tónlist gegndi mikilvægu hlutverki í námsskránni, hóf hann nám við tónlistarháskólann í Moskvu þegar hann var 16 ára. Þar hitti hann Rachmaninov og áttu þeir eftir að verða nánir vinir þrátt fyrir tilraunir dagblaðanna til að koma á samkeppni á milli þeirra.

Scriabin hætti í tónlistarskólanum til að reyna að skapa sér feril sem einlaikari á píanó árið 1892 og varð þekktur fyrir túlkun sína á verkum eftir tónskáld eins og Chopin, Liszt og Schumann. Árið 1894 hitti hann rússneska útgefandandann Beljajev sem gaf út 1. píanósónötu hans, tónverk sem er mjög undir áhrifum frá Chopin.

Árin 1895 og 1896 var hann mjög upptekinn af löngum tónleikaferðum um Evrópu. Hann samdi af miklum móð og einbeitti sér aðallega að stuttum, dramatískum verkum eins og flokki 24 prelúdía, Op. 11, fyrir píanó. Þegar hann sneri aftur til Moskvu hóf hann störf við tónlistarháskólann og kvæntist hæfileikamiklum píanónemanda.

Fyrsti meiri háttar árangur Scriabins sem tónskáld hljómsveitarverka varð árið 1900 þegar 1. sinfónía hans var frumflutt. Hún er í sex köflum og er lokakaflinn fyrir kór þar sem tónlistin er gerð við texta sem Scriabin samdi sjálfur. Um 1902 varð hann æ uppteknari af heimspekilegum og dulrænum hugmyndum. Þorsti hans eftir innri þekkingu einangraði hann jafnvel enn frekar frá raunveruleika hversdagslífsins og jók á sjálfselsku hans. En þótt persónuleiki hans yrði fyrir neikvæðum áhrifum gætti þess síður en svo í tónsmíðum hans sem urðu enn ævintýralegri, fjölbreyttari og ómstríðari. Á þessu tímabili samdi hann 3. sinfóníuna, sem hann lauk við árið 1903. Er hún í formi eins gríðarstórs kafla með bæði ljóðrænum þáttum og augnablikum mikilla átaka.

Árið 1904 yfirgaf hann Rússland aftur og ferðaðist um Ítalíu, Sviss og Belgíu. Hann tók konuna sína ekki með því hann var í tygjum við miklu yngri konu. Hinn nýji förunautur hans sýndi augljóslega þá aðdáun sem Scriabin krafðist svo jaðraði við hetjudýrkun og samband þeirra varð kveikjan að öðru tímabili mikilla afkasta. Hann skrifaði langan texta undir titlinum La Poème de l’estase (Ljóð um algleymi) sem lagði grunninn að mörgum tónsmíðum í framtíðinni, þar á meðal 5. píanósónötunni og margslungnu hljómsveitarverki með sama titil og textinn.

Næsta ár sneri Scriabin aftur til Rússlands og samdi síðustu fimm sónötur sínar fyrir píanó sem allar eru mjög auðugar með dramatískum einkennum. Þótt hann hafi dáið aðeins 43 ára að aldri hlaut tónlist hans víðtækar vinsældir á síðustu æviárum hans og hann sjálfur alþjóðlega frægð og viðurkenningu.