Ég ætla bara að taka það fram að ég hef EKKERT á móti klasssískri tónlist og finnst hún virkilega góð og skemmtileg og þetta eru eingöngu mínar skoðanir.

————————————————-

Það er sumt sem hefur alltaf farið í taugarnar á mér og mér hefur fundið heldur asnalegt með klassíska tónlist. Í fyrsta lagi er það ófrumleikinn, maður heyrir næstum aldrei eða voða sjaldan um nýja, unga klassíska tónlistarmenn sem eru að SEMJA tónlist. Það virðist búið að vera þannig í áratugi að í heimi klassískrar tónlistar er aðallega verið að spila aftur og aftur sömu gömlu sinfóníurnar eftir kalla sem dóu fyrir hundruðum ára síðan. Það má kannski skíra með þeim vana í heimi slíkrar tónlistar að skipta tónlistarmönnum í annaðhvort flytjendur eða tónskáld. Síðan er það þetta litla frelsi sem maður hefur, ég sjálfur lærði klassískan píanóleik í yfir 6 ár og ég get sagt ykkur það að síðasta árið eða svo var mér farið að kvíða fyrir því að fara í píanótíma mér fannst það svo leiðinlegt. Eins og flestir vita er alltaf borin sú “virðing” til tónskáldanna að það má aldrei spila verk þeirra nema NÁKVÆMLEGA nótu, fyrir nótu eins og þeir skrifuðu þau. Það getur nefnilega verið ferlega skítleiðinlegt að fá aldrei að gefa neitt útfrá sjálfum sér þegar maður er að spila, t.d. að taka létt sóló eða breyta aðeins til röð nótnanna. Ég byrjaði í haust eftir að ég hætti í klassískum píanóleik að læra Jazzpíanóleik, það hefur bara verið allt annað líf og ég hef sennilega lært og þjálfað mig meira á hálfu ári en ég gerði síðustu tvö árin í klassísku námi. Það er einmitt þessi munur sem skilgreinir Jazz og Klassík, t.d. ef þú myndir halda tónleika tileinkaða Charlie Parker og spila öll lögin af nótum nákvæmlega eins og hann skrifaði þau værir þú sennilega álitinn ófrumlegur og hallærislegur, ef þú hinsvegar myndir halda tónleika tileinkaða Beethoven og breyta nótunum og spila sóló myndirðu ábyggilega vera talinn vera með mikilmennskubrjálæði yfir því að ætla að reyna að gera betur en sjálfur meistarinn. Ég bara skil ekki hvernig fólk getur nennt því að eyða ævi sinni sem tónlistarmenn í því að t.d. spila í sinfóníu tónlist sem var samin fyrir mörg hundruð árum síðan, hefur verið spiluð nákvæmlega eins í milljón skipti áður, fá ekki að leggja neitt eigin framlag inn og þurfa að vera stjórnað eins og strengjabrúðu með bæði nótur þar sem ekki er lagt á sig að læra lögin og stjórnanda sem segir til nákvæmlega hvernig á að spila verkið. Þó að ég hafi talað um Klassík og Jazz sem algjörar andstæður þá er það ekki alveg satt enda hafa bilin milli þessara stefna oft verið brúuð eins og t.d. hjá meistaranum George Gershwin sem skeytti þeim saman eins og ekkert væri. Samt er þetta nákvæmlega eins með hann og aðra að fólk er að spila þetta alveg eins og hann skrifaði verkið.

Af þessu að dæma gætu margir haldið að ég væri svæsinn andstæðingur klassískrar tónlistar sem fyrilýtur hana gjörsamlega eða þá einhver sem veit alls ekkert um Klassík og er bara að blaðra eitthvað til þess að fá athygli. Það gæti vel verið rétt en að mestum hluta er það þó rangt. Ég tek aftur fram að ég er EKKI að gagnrýna tónlistina sjálfa enda er margt af klassískri tónlist einfaldlega besta tónlist sem hefur verið samin, heldur er ég að gagnrýna það hvernig hún er spiluð og hvernig fólk lítur á hana almennt.