Tónlist er fyrir mér annaðhvort miðill(list) eða skraut(handverk), reynist hún þó oftast vera beggja blands.
Skraut tónlist er eingöngu samin með því markmiði að vera falleg og þægileg, gullöld þeirrar tónlistar var án efa 18. öldin. Þá voru menn eins og J.S. Bach fyrirlitnir fyrir að skíta tónlistina út með “óviðeigandi” hlutum sem fyrir Bach þjónuðu hins vegar tjáningarlegum tilgangi. 18. aldar tónlist er einstaklega formúlukennt, enda kepptust menn að sama markmiði; að finna formúlur að þægilegum lögum sem virka, enda fengu þeir borgað fyrir hvert verk og datt ekki í hug að byrja að semja fyrr en þeir voru nokkuð vissir um borgun.
Tónlist var að þónokkru leiti tjáning á barrokk tímanum, Bach samdi t.a.m. flest verk sín í frítíma sem hann “stal” sér (en sjö 14klst. vinnudagar á viku þótti eðlilegt þá) og fékk ekki fimmeyring fyrir nema brot þeirra. Tjáning á tónlistarformi byrjaði þó fyrir alvöru á rómantíska tímabilinu, eftir að Beethoven reif tónlistina upp á rassgatinu (þó með dulítilli hjálp Clementi og annara) upp úr handverkinu. Fyrst í stað virtu þó rómantísk tónskáld til mikils þann árángur sem vannst á 18. öldinni í að ná til hins “óþjálfaða hlustanda”, en þá fullkomnaðist einmitt sú list að gera tónlist aðgengilega (99.99% rokks og popps og dágóður hluti jazz lýtur fyllilega þeim lögmálum sem mótuðust þá) en á 20. öldinni byrjuðu menn að kasta lögum 18. aldar fyrir róða og feta erfiðasta veg tónlistarinnar, þar sem hver einasti tónn verður að tengjast tjáningunni til að eiga rétt á sér. Það hljómar líklegast undarlega en forystu maðurinn í þeim efnum er sá sem líklegast hefur vitað einna mest um formúlur og lögmál 18. aldar, maður að nafni Arnold Schönberg.
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég sjálfur skil harla lítið í þessum seinni verkum hans og ekkert í verkum annara úr hans stefnu en miðað við hvernig þeir (allavega hann) skrifa um verkin sín og rökstyðja það með náttúrulegum yfirtónaröðum (sem er vísindalegt fyrirbæri) í vísunum til lögmála 18. aldar og (oftast) frægra undantekninga á þeim, sannfærir mig allavega um að þeir viti gjörsamlega hvað þeir eru að gera en “skvetti bara ekki úr blekdollunni yfir nótnablaðið” eins og sumir vilja meina.