Það er einmitt það sem ég benti á, vanþekking. Með að segja vanþekking er ég ekki að gagnrýna þig, vanþekking er þó alltaf vanþekking. Það var eiginlega bara tilviljun að ég uppgötvaði t.d. Pärt. Ég fór á tónleika með blásaraoktettnum hnúkaþeyr sem flutti meðal annars verk eftir Händel (sem ég var að sækjast eftir að heyra) sem var alveg ótrúlega vel flutt. Það var fyrsta verkið á dagskránni þannig að ég (ómeðvitað) opnaðist fyrir næstu verkum þar sem þarna var greinilega takmarkið að gera úr góða tónleika en ekki tónleika sem væru nógu “nýstárlegir” (hef fengið mig fullsaddan af þeirri hneigð) og svo spiluðu þau verk eftir einhvern Jacob að mig minnir, en það var líka mjög vel spilað, og næst Pärt; verkið Fratres. Þetta er verk sem náði einhvernvegin gjörsamlegt taumhald á mér, sem mér fannst undarlegt og hálfóþægilegt fyrst en þar sem síðasta verk tónleikanna var Mózart urðu tónleikarnir almennt ljúfir en spennandi í minningunni sem varð til þess að ég setti eftirminnilegasta verk tónleikanna, Fratres, á to-buy listann minn. Diskurinn var reyndar ekki keyptur fyrr en löngu síðar þar sem hann er ekki beint þekktasta tónskáldið hér á Íslandi og þar að auki fann ég bara Fratres í útgáfu fyrir fiðlu og píanó og fyrir tólf selló (á sama disknum, Pärt er víst búinn að skrifa um átta útgáfur af þessu lagi), á þessum disk voru svo verkin Tabula Rasa (sem verður flutt í byrjun febrúar af sinfóníusveit tónlistarskólanna) og Cantus in memoriam of Benjamin Britten, þau verk gerðu mig endanlega að þeim aðdáanda tónlistar hans sem ég er.