Prógrammtónlist var mjög einkennandi fyrir rómantísku öldina. Þetta eru verk þar sem höfundurinn tjáir veraldleg hugtök t.d. árstíðirnar eða bókmenntaverk, eða þau hughrif sem það veldur, með tónlist. Tjáning hughrifa komu ekki fram fyrr en seinni hluta 19. aldar.
Verk fengu titla sem vísuðu í hugtakið og ef það var bókmenntaverk var algengt að tónlistargestir lásu það, eða útdrátt úr því á meðan flutningi stóð.
Í raun gat hvaða tónlist sem er verið prógrammtónlist. Prógrammtónlist er til frá öllum tímabilum en á rómantíska tímabilinu urðu vinsældir prógrammtónlistar þó langmestar. Þekkt prógramm-verk frá öðrum tímabilum eru t.d. “Árstíðirnar fjórar” eftir Vivaldi, Pastoral-sinfónía Beethovens og “The Battel” eftir Byrd.
Fyrsta virkilega rómantíska prógramm-sinfónían var Symphonie Fantastique (Dramasinfónía) Hector Berlioz. Á miðri 19. öld kynnti Ferenc Liszt til sögunnar nýtt tónlistarform sem kallaðist einfaldlega Sinfóníuljóð, þetta voru einþáttungar sem undantekningarlaust voru prógrammtónlist. Með stækkun formsins var þó farið að skipta þeim í kafla, mismarga (“Also Sprach Zarathustra” eftir R. Strauss er t.d. 9 kaflar).
Í söngljóðum (lieder) var textinn auðvitað sunginn en eftir því sem þau urðu flóknari er ekki ósanngjarnt að flokka píanópartinn og laglínuna sem prógrammtónlist.