Píanósnillingurinn Franz Liszt fæddist árið 1811 í smábænum Raiding í Ungverjalandi. Faðir hans var mikill áhugamaður um tónlist, enda sellóleikari í sinfóníuhljómsveit Ercházky hirðarinnar, en þar starfaði (þá) þekktasta tónskáld klassísku aldarinnar, Joseph Haydn, í heil fjörtíu ár. Franz ólst því upp í tónlistarumhverfi og sýndi snemma mikla hæfileika.
Föður hans þóttu hæfileikar drengsins svo stórkostlegir að hann flutti með drenginn og alla fjölskylduna til Vínar til að Franz gæti fengið sem allra bestu tónlistarmenntun sem möguleg var. Það var árið 1822 og á þeim tíma þótti mjög undarlegt að gera hæfileikum barna svona hátt undir höfði. Í Vín nam Franz píanóleik hjá virtasta lærlingi Beethovens; Carl Czerny, og eftir að Antonio Salieri, helsti keppinautur Mozarts, hafði heyrt Franz spila í heimahúsi bauðst hann til að kenna Franz tónsmíðar.
Þessi umfangsmikla skólaganga varð þó aðeins átján mánaða löng því þá ferðaðist Franz ásamt föður sínum til Parísar. Þar heillaði drengurinn alla upp úr skónum og náði strax gríðarlegum vinsældum sem píanóleikari. Þar lærði hannn meira um tónsmíðar og samdi óperu og nokkur ágætis píanóverk. Hann ferðaðist síðan um Frakkland og Sviss og hélt tónleika vítt og breitt um löndin. Í beinu framhaldi af Sviss- og Frakklandsferðinni ferðaðist hann til Englands. Þar hélt hann tónleika sem bretakonungur sjálfur var viðstaddur. Stuttu eftir þá tónleika lést faðir hans úr taugaveiki. Vegna dauða föður síns þurfti Franz að snúa aftur til Vín. Þegar hér er komið við sögu var Franz orðinn fjórtán ára og strax búinn að afla sér gríðarlegra vinsælda og almennrar hylli sem tónlistarmaður og leggja dálítið í grunn Paganinis að snillingadýrkun. En hún átti eftir að setja sterkan svip á tónlistarlíf rómtísku aldarinnar.
Hann sneri aftur til Parísar árið 1826 og hóf að kenna þar á píanó. Vinskapur tókst með honum, Hector Berlioz og Frédéric Chopin. Á þessum tíma fór hann að hlúa að öðrum áhugamálum sínum, lestri og trú. Hann fór að velta fyrir sér hvort tónlist væri einhvers mikils virði, íhugaði að gerast prestur og ofan á allt varð hann ástfanginn. Í byltingunni 1830 var eins og fallbyssuskot hafi vakið Franz upp af sínum gagnrýnis hugsunum og vakið hann til lífsins. Franz heyrir Hector vinna sinn fyrsta stórsigur með Symphonie Fantastique og eftir að hafa séð tónleika með Paganini umskrifar hann La Campanella fiðlusnillingsins fyrir píanó.
Árið 1833 hófst langt ástarsamband hans og Marie d'Agoult, hertogaynju og árið 1835 flúðu þau saman til Sviss og hófu þar búsetu. Þar samdi Franz Album d'un Voyageur, en á þessum tíma var Franz aðallega tónskáld, þótt hann héldi tónleika í París af og til, til þess að halda hnignandi orðspori sínu sem píanósnillingi uppi. Umskrift La Campanella átti seinna eftir að veita Franz innblástur fyrir Mephistovalzana og Album d'un Voyageur átti eftir að þróast í Années de pélerinage, og eru þau hans mikilvægustu verk.
Hann snýr enn aftur til Parísar árið 1837 og þar sigrar hann keppinaut sinn, Sigismond Thalberg, í frægu píanóeinvígi. Þarna verður hann óbeint að “Paganini Píanósins”, en þá var Paganini frægur um alla Evrópu. Árin 1839 - 1847 ferðaðist hann um nær alla Evrópu og vakti áðdáun og hrifningu hvar sem hann fór. Með ferðum sínum safnaði hann fé til ýmissa góðgerðarmála, meðal annars fyrir minningarhátið sem haldin var í Bonn, Beethoven til heiðurs.
Á ferðaárum sínum átti Franz margar ástkonur. Vegna þess og vegna aukinna langvarandi fjarrvera að heiman slitnaði upp úr ástarsambandi hans við hertogaynjuna og þau slitu sambandinu árið 1844, þau áttu þrjú börn saman.
Franz Liszt hættir öllum ferðalögum þegar hann hefur ástarsamband við prinsessu af Kiev, Carolyne Sayn-Wittgenstein að nafni. Hún fær hann til að setjast að í Weimar, Þýskalandi, og gera hljómsveitarstjórn og tónsmíðar að aðalatvinnu. Í Weimar gegnir hann stöðu hljómsveitarstjóra á árunum 1847 - 1858 og á því tímabili semur hann kjarnann af verkum sínum. Hann samdi meðal annars báða píanókonserta sína, Faust og Dante sinfóníurnar og fyrsta Mephisto Valzinn en hann er partur af Faust sinfóníunni. Svo samdi hann Ungversku rapsódíurnar á þessu tímabili, en þær eru byggðar á sígaunatónlist sem var mjög vinsæl í borgum Ungverjalands á þessum tíma. Þá skapaði hann einnig nýtt tónlistarform; sinfóníuljóðið, sem er mjög einkennandi fyrir rómantíska tímabilið og markaði minniháttar stefnubreytingu í stefjanotkun auk þess sem þau áttu þátt í almennri stækkun tónlistarforma sem átti sér stað á rómantíska tímabilinu. Á þessu frjósama tímabili samdi hann öll sinfóníuljóðin sín nema eitt.
í Weimar varð hann líka andlit “nýja þýska skólans” og tónskáld streymdu til Weimar til að þiggja kennslu og ráðgjöf frá Franz, sem hann neitaði að taka greiðslu fyrir. Á þessu tímabili stjórnaði Franz flutningi margra tónverka eftir Richard Wagner, Robert Schumann, Hector Berlioz, Giuseppe Verdi og fleiri, til dæmis frumflutningi á Lohengrin eftir Richard árið 1850.
Samband hans við prinsessuna var að verða að heljarinnar hneyksli (þar sem hún var gift öðrum) og stuðningur hans við tengdarson sinn, Richard Wagner, sem þá var pólitískur útlagi fyrir ofsafengnar þjóðernisskoðanir sínar, varð til þess að hann var hálfneyddur til að segja stöðu sinnri sem hljómsveitarstjóra lausri árið 1858. Hann flutti svo frá Weimar 1861.
Þegar Franz tekur aftur upp samband við Carolyne, í Róm, hefst nýr kafli í lífi hans. Næstu átta ár semur hann tónlist innblásna af trúarbrögðum og Carolyne reynir án árángurs að fá páfann til að veita sér skilnað. Á þessum tíma samdi hann meðal annars áðurnefnt verk; Annés de pélerinage (Ár pílagrímanna) fyrir píanó. Það er í raun þróaðri og heilsteyptari útgáfa af Album d'un Voyageur, það er eftirtektarvert að þau eru bæði samin á svipuðu tímabili í ævi hans og eru bæði mjög íhugul. Annés de pélerinage er í þremur bindum. Hið fyrsta er um svissnesk viðfangsefni, annað um ítölsk og það þriðja er án titils og var gefið út eftir dauða tónskáldsins.
Árið 1869 er tónskáldinu boðið til Weimar og síðan til Búdapest árið 1871. Eftir það ferðast hann mikið milli Weimar, Búdapestar og Rómar. Það má líkja hverri borg fyrir sig við miðstöð fyrir hverja af þremur persónum sem áttu sér bólufestu í Franz Liszt; framsækna listamanninn, ástríðufulla sígaunann og guðrækna kaþólikkann. (John Stanley, Sígild Tónlist, Staka 1996; bls: 149)
Franz samdi á þessu tímabili Mephistovalza nr. 2-4.
Árið 1886 ferðaðist Franz í síðasta skiptið til Parísar og London þar sem hann veiktist alvarlega. Hann eyddi síðustu dögum ævi sinnar í Bayeruth, bænum þar sem Wagner-hátíðirnar eru og hafa alltaf verið haldnar. Þar hjúkraði dóttir hans, Cosima, honum en fjórum árum áður hafði hún orðið ekkja eftir Richard. Hann gat þó séð eina sýningu á Parsifal, eftir tengdason sinn, áður en hann lést. Þá var árið 1886 og aldni meistarinn orðinn 75 ára gamall.
Í tónsmíðum var Franz Liszt einkum frumkvöðull á tveimur sviðum; hann gerði vel heppnaðar tilraunir til að stækka tónlistarform, hann stækkaði til dæmis sónötuformið. Svo vann hann frábært starf í að þróa aðferðir til að taka litla hugmynd, laglínu, og vinna með hana svo úr verði fullþróað verk (eitt af helstu einkennum “nýja þýska skólans”). Í sinfóníuljóðum sameinar hann í rauninni þessi tvö frumkvöðlaáhrif sín; þau eru í raun nokkrar litlar hugmyndir sameinaðar í eitt verk, svo er unnið með hugmyndirnar og þemaskipting notuð til að skapa einkennandi áhrif sinfóníuljóðanna.
Umfram allt hafði Franz Liszt gríðarleg áhrif á tónlistarheim rómantíska tímabilsins. Úr “nýja þýska skólanum” streymdu tónlistarmenn sem höfðu þegið ráðgjöf og kennslu hjá Franz og þannig breiddust áhrif hans um alla Evrópu. Hann skildi eftir yfir 400 fullunnin verk auk margra umritana og útsetninga. Um allan heim í dag eru þessi verk spiluð og munu halda áfram að veita tónlistarmönnum innblástur lengi enn.