Ég vil líka nota tækifærið og koma því að framfæri að ef þið lumið á einhverju skemmtilegu sem þið eruð til í að birta í útvarpinu endilega hafið samband á mandolin@mandolin.is
________________________
Á síðari hluta nítjándu aldar komu fram í tónlist og öðrum listgreinum ákveðnar sameiginlegar áherslur sem voru afar áberandi og ríkjandi allt fram yfir aldamót. Hefur þetta tímabil síðar verið nefnt rómantíska stefnan í sögu lista. Tónverk samin undir áhrifum rómantíkur einkenndust m.a af miklum andstæðum, einstaklingshyggju, tilfinningasemi og fortíðarþrá. Tónlistin mótaðist einnig töluvert af vaxandi þjóðernishyggju á þessum tíma og fór fljótlega að bera mikið á tónskáldum sem að einbeittu sér að þjóðlegum tónsmíðum.
Það er óhætt að segja að þar standi Norðmaðurinn Edvard Grieg fremstur meðal jafningja. Jafnframt því að vera frægasta tónskáld Noregs fyrr og síðar er Grieg sannur kyndilberi þjóðernisrómantíkur.
Edvard Grieg fæddist í Bergen í Noregi árið 1843. Hann laðaðist snemma að tónlistinni og hlaut píanómenntun frá móður sinni. Á árunum 1858-1862 stundaði Grieg nám í píanóleik og tónsmíðum í tónlistarháskólanum í Leipzig og voru hans fyrstu verk mjög undir áhrifum frá þýskum samtímamönnum hans. Þegar Grieg sneri aftur til Noregs að loknu námi urðu ákveðin þáttskil í tónsköpun hans og hóf hann að sækja innblástur í þann mikla tónlistararf sem var að finna í norskri þjóðlagatónlist.
Tónlist Griegs bar æ síðan sterk einkenni norrænnar tónlistarhefðar. Hann hafði það að markmiði að skapa tónlist sem að norska þjóðin gæti kallað sína eigin en um leið hefði yfir sér alþjóðlegan blæ. Vafalaust má segja að með tónlist sinni hafi Grieg á stóran þátt í þjóðernisvakningu og upphafi nýrra tíma í skandinavískri tónsköpun og má því með rentu kalla hann föður norskrar tónlistar.
Grieg samdi afar lítið af stórum hljómsveitarverkum á borð við sinfóníur eða óperur. Hann einbeitti sér fremur að sköpun smárra og einfalda verka, líkt og flest píanóverk hans bera vitni um. Árið 1867 gaf Grieg út sitt fyrsta safn af smáverkum fyrir píanó sem báru heitið lýrísk stykki. Söfnin urðu alls tíu talsins og innihéldu hvert um sig sex til átta smáverk hver með sín einkenni. Með ljóðrænum smásmíðum Griegs eignuðust unnendur píanóisins vönduð og auðmeðfærileg verk sem hafa verið spiluð jafnt utan heimilsins sem innan alla tíð síðan. Útgáfa safnanna átti stóran þátt í að auka vegsemd og frægð Griegs og var hann síðar oft þekktur undir nafninu Chopin norðursins.
Grieg einbeitti sér þó ekki aðeins að tónlist fyrir slaghörpuna heldur samdi hann einnig t.a.m strengjakvartetta, fiðlusónötur, svítur og leikhústónlist svo eitthvað sé nefnt. Eitt allra frægasta verk hans er tónlist samdin við leikritið Pétur Gaut eftir samlanda sinn Henrik Ibsen. Er verkið var frumflutt árið 1876 sló Það rækilega í gegn og enn þann dag í dag eru tvær hljómsveitarsvítur Griegs úr verkinu taldar með allra frægustu verkum tónbókmentanna.
Það er ekki hjá því komist þegar hlýtt er á tónlist Griegs að hrífast að þeirri einstöku stemningu sem þar ríkir. Grieg tókst meistaralega til við að flytja stórbrotna náttúru heimalands síns yfir í ljóðræna hljóma sem lifa enn í dag langt út fyrir landamæri Noregs.
www.mandolin.is, the place to be these days…