Öllum kisum finnst gaman að leika, sérstaklega við þig. Hvort sem þú átt kettling eða fullorðin kött er leikur mikilvægur hluti af daglegu lífi og hreyfingu kisunnar þinnar.
Leikur er sérstaklega mikilvægur fyrir kettlinga. Með því að leika við þá og veita þeim athygli verða þeir betur búnir undir það að vaxa og stækka og verða sjálfstæðir kisueinstaklingar.
Það sem kettlingar læra af leiknum er t.d. veiðifærni, varnartækni og að hafa betri stjórn á sínum eigin líkama. Kettlingar þarfnast leiks á hverju degi. Kettlingur að leika er ekki aðeins að skemmta sér heldur er hann að ná sér í færni til að nota síðar á lífsleiðinni. Sumir vilja ekki sjá kettlinga slást þar sem þeim finnst það of gróft en málið er að við megum ekki gleyma að þeir eru aðeins að leika sér og skaðast mjög sjaldan í þessum slagsmálum.
Við gleymum því oft að fullorðnir kettir þurfa einnig á leik að halda. Því er trúað að kettir sem leika sér reglulega séu betri á sig komnir líkamlega ásamt því að vera í betra andlegu jafnvægi heldur en kettir sem leika sér sjaldan.
Þú sem kattaeigandi ættir að sjá til þess að eiga tíma með kisunni þinni í leik og hreyfingu á hverjum degi. Kettir þurfa ekki flókin leikföng til að skemmta sér og skemmta þér í leiðinni.
Dæmi um leikföng sem kisum finnst skemmtileg:
Vefðu gömlu dagblaði upp í kúlu og bittu band við
Pappakassar og pappapokar og allt sem hægt er að komast ofaní vekja alltaf mikla lukku.
Búðu til klórustöng fyrir kisuna þina og settu band eða skóreim á toppinn.
Settu nokkur hrísgrjón eða þurrkaðar baunir inn í filmuhylki.
Fjárfestu í leikfangamúsum, fjöðrum á stöng eða öðrum leikföngum fyrir ketti.
Góðar kisuleikstundir
IceCat