Að venja nýjan kött á heimili þar sem köttur er fyrir er oft mikið erfiðara en fólk heldur, og oft verður aðferðin sem er notuð til kynningar kattanna til þess að þeir verða óvinir ævilangt. Það er gríðarlega mikilvægt þegar verið er að kynna ketti að vera ekki að ota þeim að hvor öðrum og ætlast til þess að þeir verði strax vinir. Ólíkt hundum þá eru kettir ekki félagsdýr, eða einfarar eins og oft er sagt. Það þýðir þó ekki endilega að kettir geti aldrei þolað aðra ketti eða hafi engin samskipti við aðra ketti. Kettir byggja sín sambönd ekki á því hvort einhver sé í hópnum/fjölskyldunni eða ekki, heldur myndar kötturinn fjölda persónulegra sambanda við aðra ketti. Þó að kötturinn sé einn á heimili þá er mjög líklegt að hann eigi í samskiptum við aðra ketti þegar hann er úti, og að í rauninni hafi hann myndað mikið og flókið félagslegt netverk við aðra ketti byggða upp á persónulegum samböndum við hvern og einn kött. Það sama er upp á teningnum hjá köttum sem búa saman á heimili. Þeir þurfa að mynda sitt persónulega samband við aðra ketti á heimilinu, og þeir þurfa sinn tíma til að venjast nýja kettinum og taka hann í sátt. Þetta ferli er mjög einstaklingsbundið. Sumir kettir verða vinir strax og aðrir hata hvorn annan alla ævi og allt þess á milli. Það er alltaf auðveldast að venja kettlinga við aðra kettlinga, og gotsystkini munu alltaf vera vinir í gegnum lífið. Sumir kettir taka öllum köttum vel og aðrir kettir þola enga aðra ketti, sérstaklega ef þeir eru fullorðnir og hafa alltaf verið einir.
Að venja ketti saman getur verið bæði mjög auðvelt eða gríðarlega erfitt. Besta aðferðin er að setja nýja köttinn í flutningsbúrinu á mitt gólfið þegar heim er komið, leyfa gamla kisa að þefa, og svo er hægt að dæma um viðbrögðin. Ef það er lítið sem ekkert hvæst eða urrað og kettirnir almennt rólegir og yfirvegaðir þá ætti að vera óhætt að hleypa nýja kettinum út úr flutningsbúrinu, en passið vel að ef þeir eru að ógna hvor öðrum, hvæsa og urra, þá á að aðskilja þá og setja nýja köttinn í lokað herbergi (með mat og klósett) og leyfa þeim að fá meiri tíma í aðlögun. Það er gríðarlega mikilvægt að kettirnir nái ekki að ógna hvor öðrum eða slást, því þá tekur miklu lengri tíma að fá þá til að sættast. Þess vegna er mikilvægt að hafa tilbúið herbergi sem nýji kötturinn getur verið í á meðan aðlögun stendur. Meðan nýji kisi er í herberginu þá er tilvalið að taka þvottapoka eða tusku og nudda utan í nýja köttinn, fara svo með tuskuna í gamla kisa og nudda í hann og svo aftur í nýja köttinn o.s.frv. Með því að gera þetta þá ertu að setja lykt af gamla kettinum í nýja köttin og öfugt og þá venjast þeir lyktinni af hvor öðrum. Lykt er rosalega mikilvæg fyrir ketti, og þeir upplifa nýja lykt (af dýri) sem eitthvað sem ógnar þeim, en með því að blanda lyktum beggja kattanna saman þá hættir nýja lyktin að vera ógnun. Þessi aðferð dugar líka vel fyrir ketti sem búa þegar saman og hata hvorn annan.
Þegar nýji kötturinn er í herberginu þá er gott að opna dyrnar að herberginu og leyfa þeim að kíkja á hvorn annan. Við það tækifæri er mjög sniðugt að láta þá upplifa það sem mjög jákvæða upplifun þegar þeir eru saman, t.d. að gefa þeim alltaf kattarnammi þegar þeir eru saman eða að leika við þá. Leikur er líka mjög góður “icebreaker”, sem fær kettina til að slaka á í návist hvors annars og þá uppgötva þeir líka að hinn kötturinn er ekki sú mikla ógnun sem þeir héldu að hann væri því hann er ekki lengur ógnvekjandi heldur er að leika sér. Svo skal maður líka passa að vera ekki að sýna nýja kisanum of mikla athygli eða blíðuhót fyrir framan eldri köttinn, það veldur bara afbrýðissemi og reiði út í nýja köttinn. Ef ykkur langar að klappa nýja kisanum farið þá inn í herbergi og lokið hurðinni. Um leið og gamli kötturinn samþykkir nýja kisa þá er ykkur óhætt að gera það sem ykkur langar að gera við nýja kisa fyrir framan hann.
Þetta eru aðalaðferðirnar og svo er ykkar að meta hversu mikinn tíma og fyrirhöfn kynningin þarf að vera. Ég mæli samt með því að kynna kisurnar mjög varlega, því ef köttum lendir saman og fara að slást þá er mjög erfitt að fá þá til að sættast nokkurntímann. Kynningarferlið lýkur þegar kettirnir sættast en passið samt upp á það ef það er ekki alveg gott á milli þeirra, að skilja þá ekki eftir eina þegar þið eruð ekki heima. Svo þarf maður líka að passa að sýna báðum köttum jafnmikla athygli eftir kynningu því annars blossar upp afbrýðissemi.
Vonandi reynast þessi ráð hjálpleg. Ég hef komið 6 köttum saman, stundum gekk það vel, stundum illa, en núna þá eru allir mjög sáttir. Þetta er hópur af köttum en þeir eru ekki með sömu félagsbyggingu og hundar. Ég hef tekið eftir að kettirnir mínir hafa myndað persónuleg sambönd við hvern og einn. Sumir eru meiri vinir og aðrir alls ekki vinir og þessi persónulegu tengsl þeirra við hvorn annan eru líka breytileg og það getur slest upp á vinskapinn og ný vinasambönd myndast alveg eins og hjá mönnunum. Það er enginn yfirköttur í þessum hóp, sumir ráða yfir öðrum og sumum er alveg sama þó að hinn haldi að hann ráði yfir honum og svona er það endalaust, mjög flókin persónuleg sambönd á alla vegu og rosalega gaman að fylgjast með því.
ég fann greinina á netinu, en ekkert stóð um hver gerði þessa grein. Ég fann greinina á skógarkattaspjallinu