Minn norski skógarköttur er líka innikisa þar sem hún er heyrnarlaus. Hún hefur vanist á að fara út í bandi og finnst rosalega gaman að vera úti. Vandamálið er samt að hún er alltaf brjáluð í að komast út og tekur þessi nettu fýlu- og skemmdarköst ef hún fær ekki að fara út, fyrir utan það að finnast við vera mjög leiðinleg við hana. Sumir kettir sætta sig við að fara bara út í bandi, en því fylgir sú hætta að hann finni smjörþefinn af útiverunni og vilji alltaf komast út.
Málið er að ef köttur kynnist engu öðru en innilífi, þá sækir hann ekki eftir að komast út og er mjög sáttur við að vera inni. Oft er nóg að köttur sleppi bara einu sinni út til að hann vilji alltaf fara út eftir það. Norskir skógarkettir finnst sérlega gaman að fara út, en þeir geta alveg verið innikettir ef þeir þekkja ekkert annað.
Vandamálin við hafa innikött eru ekki mörg. Þar sem þeir gera þarfir sínar inni þá þarf að vanda um val á kattarklósettið og kattarsandi. Mín reynsla er að það er langbest að hafa lokaðan kassa með hurð (og að það sé hægt að taka efri hlutann auðveldlega af til að hreinsa sandinn) og finnst mér Bella kassarnir frá Ferplast rosalega góðir, því hurðin á þeim er svo rosalega þétt þannig að lyktin af pissi og kúk er bara inni í kassanum en ekki í allri íbúðinni. Það eru til margar ágætar kattarsandstegundir og ég er búin að prófa þær flestallar, lenti svo á kattarsandi sem er rosalega góður og líka ódýr. Þessi sandur heitir Cats best og fæst t.d. í garðheimum og Dýrabæ (Hlíðarsmára 9 + við kassana í Hagkaup í Smáralind). Einn poki kostar á bilinu 1100-1500 kr.(fer eftir hvar maður kaupir). Pokinn dugar fyrir meðalkött í rúmlega mánuð. Hann er búinn til úr jurtatrefjum (sem er umhverfisvænn og má sturta niður í klósett eða setja í moltukassa), hann klumpast mjög vel, eyðir lyktinni rosalega mikið og rispar ekki parket (eins og leirsandurinn). Jæja nóg um það.
Annað vandamál er að inniköttum getur leiðst mikið ef þeir eru mikið einir heima, sérstaklega svona aktívar tegundir eins og norski, og þá geta þeir tekið upp á því að skemma. Besta lausnin á því er að fá sér tvo kettlinga á sama tíma, því þá fá þeir félagsskap af hvor öðrum og geta verið einir heima í langan tíma. Ef þeir alast upp sem kettlingar þá verða þeir alltaf vinir og leikfélagar. Það er mín reynsla að ef köttur er einn þá er engin samkeppni um athygli mína, mat og leikföng, þannig að þeir geta orðið rosalegar dívur, verið leiðinlegir við mann, matvendnir og hreinlega á endanum stjórnað heimilinu með fýlunni í sér.
Vonandi hjálpuðu þessar upplýsingar eitthvað :)
Kveðja
Heiðrún og kettirnir sex