Ég vona að ég geti hjálpað þér.
Það sem köttur þarfnast aðallega er matur, ferskt vatn (skipta um vatn daglega) og staður til að gera þarfir sínar.
Matur: Það er betra að gefa kettinum gott fóður sem fæst í dýraverslunum eða hjá dýralækni. Fóður sem fæst í stórmörkuðum er ekki eins gott. Það er líka svipaður kostnaður við fóður, því gott fóður er mjög drjúgt, og þú færð heilbrigðari kött og losnar við hárlos og meltingartruflanir. Ég persónulega mæli með Solid Gold fóðri sem fæst í Dýrabæ Hlíðarsmára 9. Það er ekki einungis alveg frábært fóður heldur er það mikið ódýrari heldur en fóður í sama gæðaflokki. Lítill poki af fóðrinu sem endist í einn mánuð fyrir einn kött kostar um 1200 kr.
Kattarklósett: Nú veit ég ekki hvort þú ætlar að hafa kettlinginn sem innikött eða hleypa honum út. Ef hann er inniköttur þá þarf að kaupa lokað kattarklósett, og nota sand sem klumpast. Enn einu sinni er það Dýrabær með bestu vöruna. Ég held að ég hafi prófað allar gerðir af kattarsandi og sú gerð sem þeir eru með er sú langbesta. Hún heitir Cats best, pokinn kostar um 1100 kr. en endist í marga mánuði fyrir einn kött sem er alltaf inni. Svo ættirðu að kaupa þér skóflu til að moka út klumpunum og best er að moka úr kassanum daglega, en það sleppur að gera það annan hvern dag með einn kött.
Svo er bara að kynnast kettinum, hver einasti köttur er með sinn persónuleika. Þetta eru stolt dýr svo að maður ætti ekki að niðurlægja þau. T.d. held ég aldrei á ketti ef hann vill það ekki. Þegar maður sýnir þeim virðingu þá verða þeir ennþá betri gæludýr.
Svo er mikilvægt að kettir og þá sérstaklega kettlingar þurfa að hafa dót til að leika sér með. Þú getur fengið dót í dýrabúðum eða búið það til sjálf/ur. Kettir taka oft ástfóstri við furðulegustu hluti til að leika sér með. T.d. er ein kisan mín alveg tryllt í skóreimar. Mín reynsla er að kettir leika sér meira með dót sem er ekki of stórt og þeir eru mjög hrifnir af leikfangamúsum með alvöru feld. Annars getur fjöður af fugli verið uppáhaldið eða plaststykki o.s.frv.
Ég held að aðalatriðin séu komin, en ef þú hefur fleiri spurningar þá máttu emaila mig í heidrunb@simnet.is.
Kveðja
Heiðrún