Pési Prakkari, norski skógarkötturinn minn, á sér blómlegt félagslíf. Það líður varla sá dagur að ekki sé bankað upp á og fyrir utan standi krakki úr hverfinu að koma með Pésa heim. Hann á nefnilega fullt af leikfélögum um allt hverfi og heimsækir alla reglulega.
Nýlega komu 3 litlar stelpur og bönkuðu upp á. Við mamma fórum báðar til dyra og stelpurnar snérust vandræðalega hver í kringum aðra. Síðan hikstaði ein þeirra upp erindinu “er Pési Prakkari heima, megum við leika við hann?”
Nú í vikunni toppaði hann þetta alveg og elti litlu systur mína í leikskólann. Hann þvertók fyrir að fara heim þrátt fyrir hvassar skipanir frá kennurum og hann tróð sér meira að segja hvað eftir annað inn um glugga á skólanum til að leika við krakkana inni. Loks tók einn kennarinn hann í fangið og kom með hann heim. Nú “stingum við hann af” á morgnana þegar við leggjum af stað.