Að sætta kisu og "Prince/ss Charming" Hafið þið lent í því að koma með nýjan kærasta/kærustu heim og kötturinn verður alveg brjálaður eða verður þér til skammar ? T.d. með því að sitja eins og dómari með einkunnir á rúmhorninu þegar þið eruð komin uppí ? Eða að pissa í skóna hans ? Og verkfærakassann hans ? Well, ég hef lent í þessu öllu þar sem ég er í minni þriðju sambúð á 8 árum og hún Matta mín verður 10 ára á næsta ári. Því bjó ég til smá dæmisögu um hvernig hægt er að sætta kærustuna/kærastann og köttinn. Ég tek það fram að þetta virkar ekki á börn J

Setjum sem svo að þú sért kvenmaður (ef þú ert kk þá skaltu bara skipta um kyn, þ.e.a.s. í þessarri grein sko :o) sem hefur alltaf búið ein með kettinum þínum í mörg ár. En þú hittir þú Mr. Right og langar til að hann byrji að búa hjá þér. Það er aðeins eitt sem kemur í veg fyrir það og það er ein lítil (og loðin) persóna sem lætur ástina þína fara í taugarnar á sér og það er hún Mjása.

Í fyrsta lagi verður þú að líta á ástandið með augum Mjásu, hún hefur alltaf fengið alla þína athygli og verið augasteinninn þinn þinn þegar þú ert heima hjá þér. En nú verður Mjása að gjöra og svo vel að bíða eftir því að krúttið þitt (þetta nýja) fari svo hún geti fengið klórið sitt. Það sem meira er er að þessi tveggja fóta keppinautur Mjásu er stærri, með dýpri rödd en “Mamma”, og lyktar öðruvísi (allt mjög ógnandi fyrir litla kisu). Óvinurinn hefur yfirtekið nokkra af uppáhalds hvílustöðum Mjásu og það er sko kornið sem fyllir mælinn ! Það er semsagt ekkert skrýtið að Mjása sé farin að pissa á jakkann hans og urra á hann í hvert skipti sem hann kemur í augsýn hennar.

Nú draumaprinsinn hefur náð í þig svo að nú þarf hann að sættast við Mjásu ef þið ætlið að búa saman þrjú. Þetta getur verið dálítið erfitt þar sem Mjása hefur sýnt tilfinningar sínar í garð prinsins mjög greinilega. Þar sem ást katta liggur í gegnum magann er best að byrja á því að elskan þín gefi Mjásu að borða og hann einn. Í byrjun á hann að vera inni í herberginu á meðan hún borðar – hinum megin í herberginu. Best væri að hann sæti á stól eða jafnvel á gólfinu. Ef hann vill tala við Mjásu á hann að spjalla við hana í mjúkum, háum tónum og forðast að segja “sss” eins og hægt er. Hann má ekki stara á Mjásu fyrr en hún er farin að slaka aðeins á í návist hans.

Hafið í huga að lyktarskynið spilar stóra rullu í félagslífi katta. T.d. er hægt að setja óþvegna boli við hliðina á matardallinum hennar og á uppáhalds hvílustaðina. Ekki væri vitlaust fyrir þig að klæða þig bókstaflega í bol af prinsinum þegar þú knúsar Mjásu. Passið að rakspíralyktin sem prinsinn er venjulega með innihaldi ekki “musk” þar sem það fer í taugarnar á kisu.

Prinsinn á ekki að nálgast Mjásu heldur leyfa henni að nálgast hann, hún mun gera það þegar hún er tilbúin. Annars er allt unnið fyrir gýg. Prinsinn ætti að leika við Mjásu með uppáhaldsleikföngunum hennar í ákveðinni fjarlægði t.d. bolta í spotta. Það kemur svo að því að Mjása mun sjá að prinsinn þinn er ekki svo slæmur, að hann er uppspretta skemmtilegra hluta og á alltaf eitthvað gott nammi í pokahorninu. Mjása getur ekki annað en samþykkt hann á endanum. Og þegar þú sérð hversu staðráðinn prinsinn er í að þóknast og vingast við kisu þá virkilega veistu að hann er sá eini rétti.

Góðar stundir,
IceCat