Jæja þá er komið að því að ég þarf að láta litlu krúttin mín… þó svo að ég vilji það nú helst ekki en þá er full mikið fyrir mig að vera með 6 ketti!
Þetta eru þrír kettlingar, tveir strákar og ein stelpa sem fædd eru 7. júní og eru því orðin 2 mánaða. Þau eru öll orðin kassavön þó að það hafi verið vesen með læðuna á tímabili þá er hún nú farin að rata alveg í kassann. Þau eru öll hress og hraust. Þau eru öll farin að fá fasta fæðu og þá bara þurrmat og vatn en þau liggja stundum á spenanum ennþá og það virðist eingöngu vera vegna þess að mamma þeirra er þarna með spenana en ekki það að þau þurfi þess. Ég er með fullorðin hund líka og þau eru alveg vön honum… finnast hann reyndar svolítið spennandi. Eins er annar fullorðinn köttur á heimilinu sem á ekkert í þessum krílum og þau hafa ágætis áhuga á honum.
Hringur (til vinstri) fæddist seinast og er mikið fyrir það að borða eða liggja á spena móður sinnar. Eftir að hann fæddist lá hann í marga tíma á spena og ég hélt hann ætlaði bara aldrei að hætta en hann hefur stækkað vel og er mjög hress. Hann er ævintýragjarn og er alltaf til í að skoða umhverfið mjög vel. Hann er yfirleitt alltaf á fullu, mætti segja að hann væri hálf ofvirkur
Jónas (í miðju) er aftur á móti svolítill mömmu strákur og finnst voða gott að kúra hjá henni. Hann er samt forvitinn en ekki alveg eins fífldjarfur og Hringur því hann er aðeins varkárri. Hann er næstum því alveg eins og mamma sín en hún er mjög fíngerð og mjög fríð.
Embla (til hægri) hefur alltaf verið svolítið útundan. Hún mjálmar eiginlega ekkert og er frekar sjálfstæð. En ef hún fær tækifæri til að kúra hjá manni þá tekur hún það glöð. Hún er samt mjög forvitin um lífið og er mikið á vappinu en þá oftast bara ein þó svo að hún leiki sér alveg við bræður sína. Hún er dugleg að taka til matar síns.
Ef eitthvert ykkar hefur áhuga á kettlingi þá sendið mér bara skilaboð. Þetta eru yndisleg kríli sem enginn ætti að vera vonsvikinn með. Þau fá samt ekki að fara fyrr en á föstudag.