Jæja þá er Afródíta búin að koma sér fyrir og er byrjuð að sýna sérvisku. Þar sem hún er heyrnarlaus þá getum við farið með hana út að labba í taumi án þess að hún sé hrædd við umhverfið, og núna er það gert næstum því á hverjum degi. Hún fer alltaf ákveðinn hring í hverfinu og er mjög ánægð með það. Við höfum komist að því að hún elskar að hitta fólk og sérstaklega börn á labbinu og fá athygli og klapp. Við fórum með hana í Elliðaárdalinn um daginn og hún var yfir sig ánægð með að komast út í náttúruna og sjá fugla. Hún reyndi að ná nokkrum og var mjög fúl með að við vorum ekki nógu fljót að hlaupa með hana í bandinu svo hún næði þeim. Svo velti hún sér upp úr hrossaskít á grillsvæðinu og hefur fundist vera voða fín lykt af sér á eftir.
Annars gengur vel með hana og hina kettina. Þeir og hún virðast vera búin að taka hvort annað í sátt. Snælda leikur sér stundum við hana og þeir borða saman (meira að segja bita af hráu hvalkjöti sem ég gaf þeim áðan). Svo er hún búin að finna sér svefnstað en það er lítil karfa með teppi í sem hún treður sér í (furðulegt að hún festi sig ekki :) ). Þannig að það má segja að það er alls ekki ómögulegt að koma svona gömlum köttum saman ef maður sýnir þolinmæði og gefur sér tíma.
Kveðja Heiðrún og dýragarðurinn