Jæja þá er ég búin að fá mér þriðju kisuna mína. Hún er mjög falleg, hreinræktuð norsk skógarköttslæða, hvít og heyrnarlaus. Fjölskyldan sem var með hana gat ekki haft hana lengur og var hún einmitt auglýst gefins hérna á huga.

Hún kom á fimmtudaginn og var alveg stíf af hræðslu, hvæsti og urraði á hina kettina sem voru ekkert annað en elskulegheitin. Það er örugglega út af því að hún slapp út hjá fyrri eigendum og kom heim svo útbitin að hún fékk hita og varð að fara á pensillínkúr. Maður finnur ennþá förin eftir bitin undir feldinum hennar. Ekki skrítið þó hún treysti ekki köttum eftir þessa reynslu.

Múddi var voða hrifinn af henni og þó hún hvæsti og urraði á hann þá var hann samt alltaf að reyna að vera voða góður við hana og mjálma og murra í vinatón sem hún heyrði náttúrulega ekki. Snælda var frekar hrædd við hana og var bara í fýlu niðrí forstofu fyrstu dagana. Núna er Mistra farin til nýrra eigenda (var með hana í pössun) og þar sem hún var svo rosalega aktívur kettlingur þá er allt orðið mikið rólegra eftir að hún fór. Bæði Snælda og Múddi eru búin að stinga nefjum saman við nýju kisu og þó hún hvæsi ennþá á þau þá er eins og minni alvara sé í hvæsinu, og þau geta líka verið nær henni án þess að hún hvæsi. Hún er líka byrjuð að borða og fara í sandkassann og leika sér, og það er allt dæmi um að hún sé farin að slaka á. Hún horfir á Múdda og Snældu leika sér saman og maður sér það á henni að hana langar virkilega til að taka þátt, sá hana meira segja stinga loppuna í Snældu eins og hún vildi leika.

Þar sem hún er heyrnarlaus þá er dálítið skrítið að vera í kringum hana. Hún er alveg rosalega athugul, og greinilegt að hún notar öll hin skilningarvitin til fulls. Þegar hún er sofandi þá passa ég mig að tipla með fingrunum þar sem hún liggur til að vekja hana áður en ég snerti hana, því annars hrekkur hún svo við. Snælda og Múddi eru líka búin að uppgötva að þau geta læðst aftan við hana og þefað af henni án þess að fá viðbrögð. Ætli þau viti ekki af því að hún getur ekki heyrt. Svo þýðir náttúrulega ekkert að nota röddina við uppeldið ef hún er að príla einhversstaðar sem hún má ekki príla. Maður verður að gjöra svo vel að fara til hennar og taka hana niður. Ef ég vil ná sambandi við hana ef hún liggur í Múdda bæli (sem hún er búin að hertaka) þá veifa ég bara hendinni, og bendi henni á að koma. Og hún er náttúrulega eins og aðrir kettir, kemur þegar henni sýnist :)

Eru einhverjir aðrir Huga menn og konur sem eiga heyrnarlausa ketti, eða vita eitthvað um þá. Maður vill vera viss um að maður sé að gera rétta hluti. Endilega skrifið ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja.
Kveðja
Heiðrún og dýragarðurinn