Nú nenni ég ekki að taka þátt í neinu skítkasti, það eru ekki allir til í það að ræða málin á skynsamlegan hátt. Ég skil það vel að það fari í taugarnar á fólki sem er ekki kattavinir að kettir séu á sveimi hér í borg, sjálf er ég á þeirri skoðun að kettir eigi ekki að fá að ganga lausir í borg. Það er ekki málið. Þó að allir kattaeigendur tækju sig saman í dag og ákvæðu að halda köttunum sínum inni eða, eins og gera á við hunda, inni í afgirtum görðum, væri málið ekki leyst. Kettir eru töluvert úrræðabetri en hundar og geta stokkið furðulega hátt (trúiði mér skógarkötturinn minn kemur mér enn á óvart) svo ekki er einfalt að halda aftur af þeim. Svo má ekki gleyma villiköttum og köttum sem týnast (þrátt fyrir viðleitni eigenda). Sumir eru líka rómantíkerar og vilja að elsku dýrin fái að ganga frjáls en með því eru þeir einmitt að mínu mati að afsala sér þeim rétti að kalla þá gæludýr því gæludýr eru ekki frjálsir kettir, þeir eru heimiliskettir, annað eru semivillikettir. Hversu vænt sem kattaeigendunum þykir um kettina sína og ég veit af eigin reynslu hversu náin köttur og eigandi geta verið, þá getur hann ekki vitað hvað kötturinn gerir ef hann fær að ganga laus eins og honum sýnist. Kattareigandi sem leyfir ketti að ganga lausum í borg getur ekki verið viss um að hann verði ekki fyrir bíl og hann getur alls ekki verið viss um að hann fari ekki inn hjá ókunnugu fólki. Allir kattareigendur vita að það er ekki til forvitnari vera en kettir! Curiosity killed the cat (að minnsta kosti þann sem lenti inni hjá davidjons…) Ef fólk ætlar að eiga gæludýr verður það að vera tilbúið að taka ábyrgð á því. Það er ekki nóg að vera tilbúin(n) að koma að sækja hann um miðja nótt, gæludýrið þitt á ekki að vera úti um miðja nótt og alls ekki inni hjá öðru fólki. Auðvitað koma fyrir slys og stundum sleppa kettir út en við vitum nú að það er yfirleitt ekki málið. Kattareigandi ber ábyrgð á kettinum og á að sjá um hann, það er ekki að sjá um dýrið að leyfa því að ganga frjálst í stórborg, það er ábyrgðarleysi.
En nóg um það. Hvað það varðar að halda köttunum úti kann ég ekki mörg ráð en ég leigði einu sinni með stelpu sem átti 3 útiketti, hræðileg upplifun, sundurrifnir fuglar, hálfar mýs… En hún vildi að þeir notuðu kattalúguna en ekki gluggana svo hún var með net fyrir gluggunum. En það var ekki nelgt. Því var þannig komið fyrir að það voru svona plastrenningar settir í gluggann og netinu komið fyrir inni í því svo hægt var að renna netinu upp þegar glugginn var lokaður og niður þegar hann var hafður opinn, snilldaruppfinning, maður gat haft gluggann eins mikið opinn og maður vildi. Þetta er ekki dýrt en smá fyrirhöfn. Maður þarf að leggja ýmislegt á sig ef maður vill búa í borginni, þegar ég bjó úti á landi þurfti ég tildæmis ekki að þrífa ruslatunnurnar til að fá ekki rottur í ruslageymsluna, ég þurfti ekki að bíða endalaust á ljósum og keyra í 20 mín. til að komast í skólann, svona er þetta skrýtið í borginni en ég kann samt ágætlega við mig hérna, þrátt fyrir fólkið.. Nei nei, þið eruð ágæt, hættiði bara að tala í gemsa þegar þið eruð að keyra, reyniði að taka ábyrgð á köttunum ykkar (lágmarkið er nú að gelda þá) og hvernig væri svo að hætta þessu sinnepstali, í alvöru þá er það virkilega ógeðslegt og þeim til skammar er það iðka. Reynum nú að haga okkur eins og fullorðið fólk þó við séum mismunandi þroskuð.
vinarkveðja (m.a.s. til sinnepsfólksins, það veit ekki betur)
inas