Ég er ekki sammála því að útikettir geti ekki orðið innikettir. Ég á 2 ára högna sem ég fékk eins árs í Kattholti. Hann var útiköttur áður en ég fékk hann, en það er eitthvað sem kom fyrir hann því hann er mjög hvekktur yfir fólki (sérstaklega karlmönnum í úlpu). Hann er inniköttur núna og virðist vera mjög ánægður með það. Hann fær að fara út þegar ég fer til mömmu í sveitina. Hann heldur sig samt við húsið og fer ekkert á flakk, og ef ég er þar lengi þá er hann ósköp feginn að komast heim.
Auðvitað verður maður að hugsa öðruvísi um inniketti. Þeir verða að geta haft nóg fyrir stafni (leikföng og verkefni sem maður leggur fyrir þá). Þeir verða helst að vera tveir eða fleiri ef þeim kemur vel saman (ég á líka eins árs læðu og þau eru bestu vinir þó hún hafi komið seinna). Með því er hægt að komast hjá því að kötturinn leggist í leti og lífsleiða, miðað við hvað mínir leika sér mikið saman (og þá gengur ekkert smá á, það er bara hlaupið á harðaspretti yfir allt og alla). Maður verður að passa upp á mataræði, alls ekki offóðra þá og vera með fjölbreytilegan og góðan mat (ekki búðarmat, allt saman rusl, segi það af reynslu). Ég gef mínum stundum hrátt kjöt, og þeir eru mjög hrifnir af því.
Ég myndi aldrei setja köttinn minn út í Reykjavík. Ég hef misst kött út af því að hann lenti undir bíl. Hann fannst á lífi sólarhring eftir slysið og var svo illa farinn að ekkert kom til greina annað en að lóga honum. Svo er líka til svo mikið af fólki sem finnst allt í lagi að hræða og pína dýr.
Auðvitað er leiðinlegt að kettirnir komist ekki út til að veiða og sósialisera, en ég vil heldur halda þeim á lífi. Ef ég ætti heima í sveit eða miklu dreifbýli myndi ég hleypa þeim út.