Ég er að fara að fá mér kettling, og ekki bara einn heldur tvo :) Mín pæling var sú að ef þeir væru tveir þá hefðu þeir félagsskap af hvor öðrum þegar ég væri ekki heima.. svo fann ég grein á netinu þar sem taldar voru upp 10 ástæður þess af hverju tveir kettlingar eru betri en einn, þannig að ég ákvað að þýða hana lauslega og setja hér inn:
1. Þú ert að bjarga 2 lífum í staðinn fyrir 1
Oft er mikið framboð af kettlingum og ef þú færð þér 2 í staðinn fyrir 1 þá minnkarðu líkurnar á að einhver fái ekki heimili strax, því það er mun auðveldara að finna heimili handa kettlingum heldur en fullorðnum köttum.
2. Einn kettlingur getur orðið einmana
Kettlingur sem er skilinn eftir einn heima á daginn getur orðið einmana og leiðst sem verður oft til þess að hann gerir eitthvað af sér. Ef þú ert með 2 kettlinga þá verða þeir aldrei einmana, sérstaklega ef um er að ræða systkin.
3. Einn kettlingur getur gert eldri kött brjálaðan
Ef þú ert með eldri kött fyrir á heimilinu þá er mun hann líklega sætta sig betur við tvo kettlinga heldur en einn þó það hljómi kjánalega. Kettlingur mun leita eftir að leika og jafnvel stríða eldri kettinum og er ekki víst að viðbrögðin verði góð. Tveir kettlingar munu eyða orkunni meira í að leika við hvorn annan og láta eldri köttinn í friði.
4. Tveir kettlingar munu þjálfa hvor annan
Kettlingar læra með því að apa eftir, ef annar kettlingurinn er fljótur að læra að nota kassann er mjög líklegt að hinn muni herma eftir. Þeir hjálpa líka hvor öðrum með feldhirðu og þvott.
5. Þeir hjálpa hvor öðrum að fá útrás
Kettlingar geta verið orkumiklir og getur það fljótt þreytt fólk að reyna að hafa ofan af fyrir einum kettlingi. Tveir kettlingar munu leika við hvorn annan og fá þannig góða útrás meðan við mannfólkið getum slakað á öðru hvoru og notið þess að fylgjast með þeim leika :)
6. Færri hegðunarvandamál fylgja tveim kettlingum
Margir sem hafa glímt við hegðunarvandamál í kettlingum hafa horft á sum þeirra hverfa þegar kettlingurinn er kominn með leikfélaga. Margir kettlingar (líkt og mörg börn) hegða sér illa vegna þess að “neikvæð athygli er betri en engin athygli”.
7. Forvitni kemur í veg fyrir matvendni
Þegar verið er að gefa kettlingunum eitthvað nýtt að borða, og annar kettlingurinn prófar, þá verður hinn of forvitinn til að prófa ekki :)
8. Þeir nota hvorn annan sem kodda
Kettlingar leika oft svo mikið að þeir hreinlega detta niður og sofna þar sem þeir eru, ef kettlingarnir eru tveir þá er ekki ólíklegt að þeir sofni saman eða jafnvel ofan á hvor öðrum sem veitir okkur sem horfum á auðvitað ómælda gleði, því hversu krúttlegir eru 2 kettlingar sem sofa í klessu? :)
9. Það er fáránlega gaman að hafa tvo kettlinga
Það þarf varla að segja meira, þeir sem hafa átt tvo kettlinga eru líklegast allir sammála því hvað það er gaman að eiga þá og fylgjast með þeim vaxa.
10. Þeir munu báðir eiga vin fyrir lífstíð
Tveir kettlingar sem vaxa og eldast saman munu að öllum líkindum verða vinir alla ævi. Það er auðvitað við því að búast að þeir séu ekki alltaf sammála (enda, hvaða vinir rífast aldrei?) en það er ekkert betra en að leika og sofa með besta vini sínum.
Þannig að ef þið eruð að spá í að fá ykkur kettling, endilega íhugið það hvaða kostir fylgja því að hafa þá tvo ef aðstaðan er fyrir hendi :)
Greinina er hægt að finna á ensku hér: http://cats.about.com/od/wheretoadoptacat/ss/twokittens.htm