Nú er ævilangur draumur minn loksins að rætast, ég er loksins farin að búa og get fengið mér kettling. Hann er á leiðinni, kemur um helgina og ég er alveg í skýjunum!! En ég er líka farin að kvíða fyrir… Hvað ef ég geri eitthvað vitlaust, hvað ef hún (læðan) gerir eitthvað vitlaust eða verður veik eða eitthvað? Hvað á ég að gefa henni að borða, hvaða sand er best að kaupa, þarf ég að kaupa einhver vítamín o.s.frv. o.s.frv. Kannast einhver við þetta? Ég hef ekki alist upp með gæludýr en nú er 4 ára persi (ég má segja það því hann er hreinræktaður en ekki síðhærður húsköttur… :) ) heima hjá foreldrum mínum og ég hugsaði mikið um hann þangað til ég flutti að heiman. Málið er að þegar við fressinn kynntumst var búið að ala hann upp, so to speak, þau segja reyndar að hann hafi alið sig sjálfur upp. Ég hef því enga reynslu af kettlingum. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem gæti hughreyst mig örlítið, þó ekki væri nema til þess að segja að ég sé kjáni að hafa svona miklar áhyggjur af þessu.
Með kveðju,
Ína.
(Kisan mín er norsk skógarkattablendingur; hálfsíðhærður heimilisköttur…)