Í heitu löndunum eru ýmis stórvaxin dýr af kattarættkvíslinni sem leggjast á stórgripi og eru oft mannskæð.
Ljónið er einna stærst, 2 m á lengd, auk rófunnar, sem er löng og mjó með hárskúf á endanum. Á litinn er það grágult. Karldýrið er mjög loðið að framan. Ljónið á heima víða um Afríku og í Vestur-Asíu og drepur oft stórgripi, því að það er ákaflega sterkt og hugað; stundum ræðst það á menn.
Tígrisdýrið er á stærð við ljónið, en allt jafnloðið og rauðgult á lit með svörtum þverrákum (bröndótt) og öllu grimmara en ljónið, einkum er það mannskæðara. Það á helst heima í votlendum kjarrskógum í Suður-Asíu. Það gerir stórtjón á búpeningi, og auk þess verður árlega fjöldi manna því að bráð, því að illt er að varast það, þar sem það liggur í leyni í hávöxnu grasi eða þéttu kjarri.
Pardusdýrin í Suður-Asíu og Afríku og jagúarinn í heitu löndunum Ameríku eru nokkru minni en tígrisdýrið og gul á lit, með dökkum hringblettum.
Gaupan er miklu stærri, háfættari og rófustyttri en köttur og hefur stutta hártoppa upp úr eyrunum. Hún á heima í skógum Skandinavíu og lifir einkum á hérum, en leggst líka á sauðfé.
Kötturinn og þau dýr, sem talin voru hér á eftir honum, eru náskyld og teljast til kattarættirnnar.
Plempen!