Ég er í dálitlum vandræðum með kött nágrannans sem kemur sífellt inn til mín. Ég á einn kött sjálf og hef verið með kattalúgu á útidyrahurðinni í 2 ár. Það hefur gengið alveg vandræðalaust þangað til núna síðasta hálfa árið eftir að nágrannakötturinn byrjaði á þessu. Eina ráðið sem ég hef haft er að læsa kattalúgunni en þá loka ég minn kött líka úti. Ég var því að spá í að skipta út kattalúgunni hjá mér, og fá mér aðra sem opnast bara fyrir mínum ketti. Ég hef verið að skoða úrvalið á netinu og er bara alveg ringluð. Algengast virðist vera sú tegund þar sem segull er settur í ól kattarins og opnar þannig lúguna (sem er þá örugglega líka með segul). En ég var að velta fyrir mér hvort lúgan myndi þá ekki opnast líka fyrir köttum sem eru líka með svona segul á sinni ól? En annars eru líka til svokallaðar “infra-red” lúgur, en þá er víst settur kubbur með geisla í ól kattarins (virkar örugglega svipað og fjarstýringar). Mér sýnist líka að það sé svona sérstakur kóði í geislakubbinum, þannig að lúgan opnist bara fyrir mínum ketti, og ekki öðrum köttum með geislakubb eða segul.
Er einhver sem lumar á meiri vitneskju um þetta eða hefur reynslusögur? “Infra-red” lúgurnar eru miklu dýrari (10-18 þúsund), svo maður myndi auðvitað velja segullúgurnar ef þær virka rétt. Það væri bara ekki gaman að lenda í því að vera búin að eyða pening í svona segul-lúgu og setja hana upp, en komast svo að því að einhver köttur í nágrenninu er líka komin með segul og kemst þannig inn til mín.
Annars er þessi köttur sem kemur inn til mín einstaklega blíður og góður, og ekkert ónæði af honum í raun og veru, annað en samviskubitið sem hann lætur mig fá. Hann virðist nefnilega alltaf eiga svo bágt, vælir og ber sig svo aumlega ef maður ætlar að reka hann út, og greyið virðist alltaf lokaður úti. En ég vil samt ekki gefa honum mat eða leyfa honum að vera inni hjá mér, því þá myndi hann líklega bara setjast að. (Er samt hálfan sólarhringinn hjá mér nú þegar, og ég þarf að reka hann út svona 10 sinnum á dag). Ég hef reynt að tala við eigendur hans, og þau stungu upp á því að ég sprautaði vatni á hann til að hrekja hann burt. En sorrý, ég geri bara ekki svoleiðis, þessi köttur virðist eiga nógu erfitt fyrir greyið. Ég stakk upp á því að þau fengju sér kattalúgu svo hann kæmist inn til þeirra, en þau vildu ekki “skemma” hurðina hjá sér. Æ, svo getur vel verið að honum líði ekkert illa heima hjá sér (samt tvö börn og Shceffer hundur), maður hefur alveg heyrt um dæmi þar sem kettir sækja mikið í önnur heimili þó þeir hafi það alveg mjög gott heima hjá sér. En þetta grey virðist bara alltaf vera úti, eða þá að hann kúrir inni í forstofu hjá mér.
En, anyways, það væri frábært ef einhver hefði upplýsingar um svona lúgur með stýrðri opnun eða einhverjar reynslusögur.
Með kærri kveðju,
Guðrún.