Dúlla f. 1.apríl 1989 d. 27.júní 2006
Dúlla mín fæddist þann 1.apríl árið 1989, eða þegar ég var 3 að verða 4 ára. Rakel systir mín kom með hana heim sem pínulítinn kettling og hún var svo sæt að það var ekki aftur snúið. Ég man ennþá eftir því þegar Dúlla kom fyrst inn í húsið. Hún var svo svakalega lítil og mig langað svo mikið til að halda á henni allan tímann og elta hana um allt. Mér var bannað að gera það svo að hún gæti nú skoðað sig um í friði. Ég átti samt alveg ferlega erfitt með mig, enda ekki nema 3 og hálfsárs.
Dúlla var ein besta kisa sem ég get hugsað mér. Ég mátti gera allt við hana og hún klóraði mig aldrei í reiði. Einu skiftin sem ég fékk klór frá henni var þegar ég var að leika við hana í stólnum hennar. En það var svona bólstraður stóll með ullarklæði sem henni þótti afskaplega gaman að leika sér í og spóla í með afturfótunum. Hún klóraði mig samt aldrei viljandi eða í neinni gremju. Dúlla var algerlega kisan hennar Rakelar fyrstu árin. Allavega meðan að henni þótti ég vera of mikill krakkagríslingur.
Þegar Rakel flutti að heiman þá tók ég við því starfi að vera aðalklappari. Dúlla var þannig köttur sem ekki átti eigendur heldur þjóna. En hún fór afskaplega vel með þjónana sína og aldrei með neina stæla. Samt átti hún það til að vera mjög móðgunargjörn ef henni var misboðið. Ég t.d. lærði að liggja alveg grafkjur alla nóttina vegna þess að ég vissi að Dúlla myndi fara í fýlu ef mér myndi hreyfa mig of mikið. Hún lét sko alveg vita þegar hún var móðguð, labbaði burt og skottið titraði.
Það þýddi aldrei neitt að kalla í Dúllu. Hún hlíddi ekki innkalli. Hún aftur á móti fór ekkert þegar maður var að ná í hana, en aldrei skyldi hún labba til manns þegar maður kallaði. Stundum þegar hún var augljóslega á leið til manns til að fá klapp og maður kallaði í hana, vissi hún að ég vildi klappa henni og settist bara niður til að láta ná í sig. Var ekkert að reyna neitt óþarflega mikið á sig ef hún þurfti þess ekki. Ég var samt alltaf jafn montin af því hversu vel hún treysti mér og hversu auðvelt það var að ná í hana úti. Henni var meira að segja sama þó ég tæki yfir hana handahlaup.
Það fór aldrei á milli mála að Dúlla var drottning kattanna í hverfinu og var aðeins einn köttur sem henni var vel við. Það var vinur hennar Prins sem bjó ofar í götunni. Prins lést því miður úr krabbameini þegar hann var 12 ára og Dúlla 10 ára. Flesta aðra ketti hverfisins hefur Dúlla reynt að hamfletta. Það hefur ekki verið sjaldan sem hún hefur komið heim með alveg gríðaleg sár, en mjög stolt engu að síður yfir afrekum sínum. Hún var varla nokkuð skárri en ógeltur fress.
Einnig var Dúlla veiðikló mikil og ófár fuglinn sem endaði líf sitt í kjaftinum á henni. Henni fannst líka mjög gaman að koma inn með lifandi fugla til að veiða þá svo aftur inni. Það endaði samt yfirleitt með því að ég og Ásgeir eyddum dágóðum tíma í að reyna ná fuglinum til baka þar sem mjög hátt er til lofts heima í Fannafoldinni, eða um 5 metrar þar sem það er hæðst.
Veiðin minnkaði samt til muna þegar hún náði 12 ára aldri eða svo. Eftir það kom bara einn og einn fugl svona með nokkura mánaða- til árs fresti. Samt átti Dúlla mun meira eftir. Hélt alltaf áfram að lumbra á köttunum í hverfinu svo eitthvað sé nefnt.
Dúlla náði því að verða rúmlega 17 ára. Það er ótrúlega langur tími til að eiga gæludýr og er ég mjög þakklát fyrir allt sem hún gaf mér. Ég gat alltaf talað við hana og sagt henni frá öllum mínum leyndarmálum… Og á 17 árum eru leyndarmálin sem Dúlla fékk að vita of mörg til að ég geti talið þau. Ef eitthvað kom uppá, var Dúlla alltaf til staðar til að hugga mig og eiginlega alveg ótrúlegt hvað hún sótti í að vera hjá mér þegar ég var sorgmædd. Eiginlega alveg eins og hún vissi að eitthvað væri að og mig vantaði einhvern til að gráta í.
Síðast liðið 7 og hálfa árið hefur Dúlla þurft að lifa með hundeign minni. Hún hefur aldrei komist í almennilega sátt við hundana síðan ég fékk Alex fyrst. En lært samt að þeir gera henni ekkert svo lengi sem hún hunsar þá bara. Ég bjó ekki með Dúllu tvö síðustu árin nema rétt í 1 og hálfan mánuð áður en ég fór sem kennelhjálp til Svíþjóðar. Ég reyndi að eiða svolitlum tíma með henni í hvert sinn sem ég heimsótti mömmu og pabba og hún var alltaf glöð að sjá mig.
Þegar ég kom í heimsókn frá Svíþjóð tók ég eftir mikilli hrörnun hjá Dúllunni minni. Hún virtist ekki sjá nema rétt ef eitthvað var alveg við nefið á henni og hún var orðin frekar horuð. Samt var hún glöð þegar ég kom og þekkti mig alveg greinilega og heyrði vel í mér þegar ég kallaði í hana. Ég sá það samt að hennar tími nálgaðist óðfluga. Ég tók þá ákvörðun að nú skyldi hún fá að fara áður en hún færi að kveljast frekar. Ég pantaði tíma hjá Steinunni dýralækni, en af einhverjum ástæðum panntaði ég tíma í skoðun. Ég bara fékk það ekki af mér að pannta aflífun.
Seinna um daginn hringdi ég og afpanntaði tímann. Ég gat þetta bara ekki. Það var ekki svo langt síðan ég hafði farið með Pexó, og eins og það tók á mig gat ég ekki ímyndað mér hvernig það myndi fara með mig að horfa á eftir Dúllunni minni. Það er allavega bókað mál að það hefði eyðilagt það sem eftir var af minni viku löngu heimsókn til Íslands.
Þegar ég var svo komin út bað ég Rakel fyrir þessu erfiða verkefni og hún tók því. Ég get vart hugsað til þess hvað þetta hefur verið erfitt fyrir hana, þar sem hún bjó lengi vel með Dúllu einnig.
Það er með miklum söknuði og mörgum tárum sem þessi orð eru skrifuð, en samt get ég alltaf glaðst yfir því að hafa fengið svona langan tíma með eins yndislegu dýri og Dúlla var. Ég mun aldrei gleyma henni svo lengi sem ég lifi og það mun fjölskyldan ekki gera heldur.
Hvíl í friði litli engillinn minn, núna geturu hitt hann Prins, vin þinn, á ný og svo tekuru vonandi á móti mér með mjálmi og mali þegar minn tími er kominn. Ekki gleyma að ég elska þig og mun alltaf hugsa til þín og eiga af þér góðar mynningar svo lengi sem ég lifi.
Kveðja, Dóra mamma.