Framundan eru haustsýningar Kynjakatta, þann 8. og 9. október. Þær verða haldnar í Reiðhöll Gusts í Kópvavogi, á sama stað og síðustu ár. Þessar sýningar verða afmælissýnar félagsins þar sem Kynjakettir eru 15 ára í ár.
Skráning á sýningarnar er hafin og má nálgast umsóknareyðublöðin hér á síðunni.
Að hámarki 160 kettir geta tekið þátt í sýningunum og ganga þeir fyrir sem fyrstir skrá kettina sína. Síðasti skráningardagur er föstudagurinn 9. september og verður ekki hægt að taka við skráningum eftir það. Ef búið verður að skrá 160 kettir fyrir 9.september verður skráningu hætt. Því er mikilvægt að ganga frá skráningu sem allra fyrst. Athugið að greiða þarf sýningargjaldið við skráningu og send kvittun fyrir greiðslu með skráningareyðublaðinu (sjá verðskrá). Athugið að sýningargjald er ekki endurgreitt ef hætt er við þátttöku eftir að skáningu líkur.
Sýningarnefnd hefur ákveðið að hafa þema í skreytingum á sýningunni og munu skreyta salinn í anda Hrekkjavöku. Þeir sem vilja taka þátt í því að auka stemminguna eru því vinsamlega beðnir um að skreyta búr sín í anda hrekkjavöku, t.d. með því að nota svart og appelsínugult skraut eða gardínur, myndir af nornum og svörtum köttum, grasker eða hvað eina sem fólki dettur í hug. Þetta er í fyrsta sinn sem þema verður í skreytingum og því verður gaman að sjá hve margir taka þátt í því. Að sjálfsögðu er ekki skilyrði að taka þátt í þessu og mega félagsmenn skreyta búrin eins og þeir vilja.
Til gamans og í anda þemans verða dómararnir beðnir um að velja uppáhalds svarta köttinn og fær sá köttur sérstök verðlaun sem Hrekkjavökuköttur ársins. Því væri því gaman að sjá sem flesta svarta ketti á sýningunum.
Athugið að kettirnir verða að hafa verið bólusettir gegn kattafári og kattainflúensu á tímabilinu frá 10.október 2003 til 22. september 2005. Kettlingar verða að vera búnir að fá báðar upphafsbólusetningarnar, þá seinni fyrir 22. september.
Mikilvægt er að klippa broddinn af klóm kattanna áður en komið er með þá í dýralæknaskoðun að morgni sýningardags.
Við minnum á netfangið kynjakettir@kynjakettir.is.
Einnig er velkomið að hringja í Ásu í síma 8473643, Björn Inga í 866 1630, Húbert Nóa í 895 9547, Kolbrúnu í 587 3929 / 6985698, Martein í 895 4007 eða Margéti í 588 0304 / 698 6244 og munu þau svara fyrirspurnum varðandi sýningar.
Skráningarblöðin má senda með tölvupósti á netfangið gjaldkeri@kynjakettir.is, með pósti í Pósthólf 100, 121 Reykjavík eða á fax 588 0304.
Hlökkum til að sjá ykkur og kettina ykkar á sýningunum.
Stjórn og sýninganefnd Kynjakatta.
Tekið af síðu Kynjakatta.