Hæ kattarvinir

Ég sendi þessa grein á nokkur kattarspjöll, þannig að þið getið hafa séð hana áður. Mig langar í þessari grein að miðla af reynslu minni í sambandi við sýkingar í köttum með bitsár eftir aðra ketti.

Algengasta orsök sýkinga í köttum að mínu mati, að minnsta kosti útikatta eru bitsár eftir aðra ketti. Kettir hafa gríðarlega mikið af bakteríum í munninum og þess vegna kemur yfirleitt sýking í bitsárin. Það er sama hvern kötturinn bítur, einnig menn sem eru bitnir af köttum fá sýkingu, þannig að ef köttur bítur mann í gegnum húðina, þá þarf strax að sótthreinsa sárið jafnvel þó að það sé mjög grunnt og lítið. Kettir geta líka fengið sýkt bitsár eftir önnur dýr og er það þá helst rotturnar valdar að því, enda þær líka með mikið af bakteríum í líkamanum.

Útikettir sem flytjast á nýja staði þurfa að skapa sér yfirráðasvæði og átta sig á hvar yfirráðasvæði annarra katta er. Kettir sem eru fyrir á svæðinu taka náttúrulega illa í að það sé kominn nýr köttur, þannig að þeir ráðast á nýja köttinn og særa hann oftast. Þess vegna verður maður að vera mjög vakandi fyrir bitsárum þegar maður er fluttur með köttinn á nýjan stað eða hefur fengið sér nýjan kött á heimilið. Þegar ég flutti á nýjan stað fyrir 2-3 árum síðan þá fóru tveir af mínum köttum út og þeir voru í sífelldum slagsmálum og það byrjaði ekki að róast hjá þeim fyrr en eftir ca. 3 mánuði af útiveru og núna eru þeir alveg hættir að lenda í slagsmálum og fá bitsár.

Sýking vegna bitsára getur verið erfitt að sjá með berum augum. Oft hylur feldurinn það og það er líka oftast mjög lítið sár, kannski smá punktur eftir vígtönn. Það er oft mikið betra að finna það með því að strjúka yfir feldinn og athuga hvort það sé nokkursstaðar bólga með greinilegum vökva inní, eða öðrum orðum graftarkýli. Stundum myndast flóki í feldinum hjá graftarkýli vegna þess að það er einhver smá vökvi sem kemur út úr því og límir hárin saman. Algengustu bitstaðir eru kinnar, fætur og skottrót. Einkenni bitsárasýkinga fyrir utan kýlið geta verið margvísleg. Stundum er kötturinn pirraður og bregst illa við ef maður snertir hann á ákveðinn stað eða snertir hann yfirleitt. Hann getur verið haltur, hann getur tekur upp á því að sleikja hreinlega hárin af á ákveðnum stöðum, hann getur verið heitari en venjulega, lystarlaus, órólegur og í verstu tilfellum orðið slappur og falið sig á dimmum, rólegum stað.

Sumar sýkingar eru svo alvarlegar að það þarf að fara með köttinn til dýralæknis. Einkenni sýkinga sem þurfa sérfræðiaðstoð eru t.d. ef sýkingarsvæðið er mjög stórt, ef sýkingin er greinilega gömul (holdið orðið dautt og þarf að fjarlægja), ef kötturinn stígur ekki í fótinn sem sýkingin er í (þá getur hún verið komin í liðinn), ef kötturinn er mjög slappur (lítur ekki við mat, vatni, búinn að fela sig, er hættur að hreyfa sig, virkar mjög heitur og andar hratt).

Ef maður vill bíða með að fara með köttinn til dýralæknis því hann virðist ekki vera alvarlega veikur þá er ýmislegt sem maður getur gert sjálfur. Það fyrsta sem maður þyrfti að gera er að klippa hárin stutt á sýkingarsvæði (sérstaklega ef kötturinn er síðhærður, ef kötturinn er með mjög snögg hár þá getur maður sleppt því að klippa). Það er sérstaklega mikilvægt ef það hefur myndast flóki, því þá getur kötturinn ekki komist að sárinu til að hreinsa það. Stundum er nóg, ef sýkingin er ekki alvarleg, og ef gröfturinn kemst út úr sárinu að bara klippa. Ef kýlið virðist vera lokað þá þarf maður að dreina gröftinn út. Það gerir maður annaðhvort með að kreista kýlið ef þrýstingurinn við það opnar útleið fyrir gröftinn í gegnum sárskorpuna, eða með því að stinga á það og kreista síðan út. Munið að gæta ítrasta hreinlætis, verið helst með einnota hanska og nóg af hreinum klútum til að þurrka gröftinn með. Það er mjög mikilvægt að allur gröfturinn sé tappaður af, því hann er í rauninni bara bakteríurnar. Eftir að búið er að kreista kýlið, þá þarf að hreinsa sárið vel með sótthreinsuðum grisjum vættum í soðnu vatni eða sáravatni. Munið að þetta er ekkert sérstaklega geðslegt. Gröfturinn er bæði ógeðfelldur á litinn og lyktar mjög ógeðslega, þannig ef þið eruð mjög klígjukennd þá ættuð þið að láta annan um þetta verk.

Svo þarf maður að fylgjast vel með sárinu og best að halda kettinum inni þangað til hann er búinn að jafna sig. Gott er að hreinsa það 1-2 á dag með soðnu vatni eða sáravatni. Það er mín reynsla að það er best að vera ekkert að setja umbúðir á sárið, því þá kemst kötturinn að því og getur hreinsað það sjálfur og það er staðreynd að sýkingar þrífast vel í hitanum sem myndast undir umbúðum. Það hjálpar líka að setja hreinan, volgan klút yfir sárið í 5-10 mínútur 1-2 á dag, því ef maður gerir það, þá er sárið fljótar að skilja út gröftinn. Ef sárið er ekki orðið graftarfrítt og byrjað að gróa innan viku þá þarf greinilega meira til og því best að fara til dýralæknis, sem líklega setur köttinn á fúkkalyfjakúr. Stundum getur það komið fyrir að kötturinn er að hreinsa sárið allt of mikið. Afleiðing af því er stærra sár sem grær ekki. Góð aðferð gegn því er að setja skerm á köttinn þangað til sárið er gróið.

Þar sem svona graftarkýli eru gífurlega sársaukafull fyrir köttinn þá getur verið ansi strembið að tæma kýlið. Sumir kettir verða alveg brjálaðir og geta bitið mann illilega. Þá ketti er best að láta dýralækninn sjá um, því þeir geta notað róandi eða svæfandi lyf á köttinn svo hægt sé að gera að sárinu. Sumir kettir virðast vita að maður sé að hjálpa þeim og eru tiltölulega rólegir. Ég hef reynslu af báðum þessum viðbrögðum. Einn köttur sem ég átti fékk graftarkýli í skottið og var kominn flóki yfir sárið. Ég klippti hárin af skottinu en það tók marga tíma, því í hvert skipti sem ég klippti þá brjálaðist hann og reyndi að bíta mig, þannig að ég klippti einu sinni og hörfaði, beið þangað til að hann hætti að vilja myrða mig og klippti aftur og hörfaði og svona gekk þetta þangað til að hann gat komist að sárinu og sleikt það og hann var orðinn kýlafrír nokkrum tímum seinna. Um daginn var einn kötturinn minn allt í einu með graftarkýli eftir bit á afturfætinum (enda hún nýbyrjuð að fara út) og orðin ansi heit og bólgin. Hún leyfði mér að tæma kýlið og réðst ekkert á mig þó að hún öskraði af sársauka allan tímann og hún var búin að jafna sig 2 dögum seinna. Eitt trikk sem ég veit um sem gæti verið gott að nota t.d. við kýli í skottrót, er að vefja köttinn þétt inn í handklæði og láta bara skottið og hausinn standa út og láta aðra manneskju halda kettinum.

Mín reynsla af þessum sýkingum er að kettir eru rosalega fljótir að jafna sig þegar kýlið hefur verið tæmt. Ég hef séð ketti með mikinn hita og rosalega slappa jafna sig á nokkrum tímum við rétta meðhöndlun. Þeir hafa svo sannarlega níu líf J
Kveðja
Heiðrún