Hæ Kattarhugarar
Ég ætla að fjalla um í þessari grein nokkur atriði sem ég hef tekið eftir í sambandi við að eiga og ala upp ketti.
Ég á 5 ketti og hef haft fullt af öðrum köttum í pössun. Þeir kettir sem ég á hafa allir fyrir utan einn komið fullorðnir til mín. Sú elsta var 5 ára og sú yngsta 6 mánaða. Það halda margir að maður eigi að fá sér alltaf kettling og að það þýði ekki að fá sér fullorðinn kött. Auðvitað er gaman að hafa fjöruga kettlinga, en það eru líka margir kostir við að taka fullorðinn kött. T.d. getur maður verið fullviss um hvernig skapferli kötturinn hefur, en það er erfiðara að dæma um það með kettlinga. Kettlingum þarf að kenna góða kattarsiði, og þeir geta verið mjög óþekkir og skemmt hluti, og svo fara þeir á gelgjuna og verða mjög mótþróafullir á því stigi eins og manneskjur. Oftast eru fullorðnir kettir fullkomlega siðaðir frá fyrri eigendum og þarf ekki að hafa fyrir því að siða þá til. Fólk heldur að kötturinn tengist manni ekki ef hann er orðinn fullorðinn. Það er ekki rétt. Allir mínir kettir hafa tengst mér sterkum böndum og læðan sem var 5 ára hefur gjörbreyst. Ég fékk hana mjög fælna og það mátti varla klappa henni. Með því að sýna henni mikla hlýju og bregðast ekki trausti hennar, þá hefur hún breyst í algera kelirófu sem eltir mann út um allt og hún er orðin mjög gæf.
Það er hægt að fá hvaða kött sem er, svo lengi sem hann er vanur manneskjum til að verða gæfan, að minnsta kosti við mann sjálfan. Ég á einn högna sem ég fékk úr Kattholti. Það hefur greinilega einhver verið vondur við hann því hann er með hálfgerða áfallaröskun. Hann er rosalega fælinn við ókunnuga, vill ekki láta halda á sér og er almennt mjög trekktur. Hann hefur breyst mjög mikið með tímanum. Hann tengdist mér strax í Kattholti, en með tímanum þá varð hann líka gæfur við kærasta minn. Aðferðin sem maður notar til að fá ketti til að vera gæfa er mismunandi, en það virkar alltaf að tala í falsettu, gæla mikið við þá svo lengi sem þeir leyfa manni, gefa þeim mat, og jafnvel gefa þeim mat ef þeir eru gæfir við mann. Svo má aldrei gera þá hvekkta. T.d. með því að elta þá ef þeir vilja ekki koma til manns, halda á þeim þegar þeir vilja það ekki og bara allt sem þeir þola ekki. Ef maður fer yfir strikið hjá kettinum þá er maður eiginlega kominn á núlreit og þarf að byggja upp traust hans á manni aftur.
Það er hægt að ala upp ketti, sama hversu gamlir þeir eru. Ég nota mikið orð til að ala upp mína ketti. Þeir skilja allir hvað Nei þýðir og þeir skilja allir hvað Duglegur þýðir. Maður verður nefninlega líka að hrósa köttum jafnt sem að skamma þá. T.d. þá hrósa ég alltaf köttunum mínum þegar þeir klóra í klórubretti eða klórustaur, og ég segi alltaf “Nei, skamm” ef þeir klóra þar sem þeir mega ekki klóra. Ég tek líka eftir að þeir klóra á réttu staðina þegar maður er hjá þeim stað, því þeim finnst svo gott að fá hrós, oft er biðröð í viðkomandi klórutré til að fá hrós. Ég segi ekki beint “duglegur” heldur “duuullleguuuur”
Maður á heldur ekki að segja “Nei” í venjulegum málróm, heldur verður maður að segja það hátt og í reiðilegum tón, svona hálfgert gjamma það.
Það er líka nauðsynlegt að sýna kettinum sínum hæfilega hlýju og klappa honum þegar hann vill það. Það er jafnnauðsynlegt að láta hann í friði þegar hann vill vera í friði. Maður á ekki að taka upp kött sem vill það ekki eða gera eitthvað sem hann vill ekki, nema það sé algerlega nauðsynlegt. Kettir eru mjög stolt dýr og það á að virða þá, því þá virða þeir mann til baka og maður fær ánægðari kött sem verður gæfari.
Flestir halda að köttur sé einfari og líði best þannig. Í sumum tilfellum er það rétt ef kötturinn þekkir ekkert annað, en mín reynsla er sú að flestir kettir, sérstaklega þeir sem eru aldir upp með fleiri köttum, líður vel með návist annarra katta. Þeir mynda vinasambönd eins og menn, og þau eru næstum því eins flókin og hjá manninum. Köttur sem er einn, og þá sérstaklega innikettir getur leiðst mjög mikið án annarra katta. Þessir kettir verða oft eins og einbirni hjá mannfólkinu. Þ.e.a.s. ofdekraðir, matvandir, skapvondir og tillitslausir. Strax og kettirnir verða tveir þá verður samkeppnin um hylli eigandans virk, og þeir sýna á sér sínar bestu hliðar og éta allt sem að þeim er rétt, aðallega svo hinn kötturinn fái það ekki. Kettir sem eru margir leika sér líka mikið meira heldur en einir kettir, og þá mikið við hvorn annan. Það er hægt að skilja þá eftir allan daginn og jafnvel yfir nokkra daga (svo lengi sem þeir fá fóður og hreint vatn), án þess að köttunum leiðist því þeir fá félagsskap af hvor öðrum. Ég vona samt ekki að eigendur einna katta fari strax og fái sér annan, því kettir sem eru vanir að vera einir eiga mjög erfitt með að sætta sig við annan kött á heimilinu, samt er ekkert hægt að fullyrða um það, sumir kettir smella saman en sumir verða óvinir frá fyrstu kynnum.
Að lokum vil ég minna á að í Kattholti eru tugir fullorðinna katta sem bíður ekkert annað en að verða svæfðir því það fást ekki eigendur fyrir þá, því fólk vill alltaf fá kettlinga. Hafið í huga það sem ég hef sagt um að fá sér fullorðinn kött. Þeir eru oftast besti kosturinn, því þá er maður ekki í vafa hvernig kötturinn verður. Kattholts kettir verða líka oft bestu kettirnir því þeir vita að þeim var bjargað. Ég er sjálf með tvo ketti úr Kattholti þar af einn sem var fælinn og þetta eru bestu kettirnir.
Kveðja
Heiðrún