Mér finnst hafa verið svo lítið að gerast á kattaáhugamálinu á Huga þannig að ég ákvað að bauka saman grein um hvað ég hef komist að um fóður katta í gegnum árin

Fiskur í hófi er ekkert endilega slæmur fyrir ketti eins og er stundum haldið fram. Ég hef séð ketti fá flösu við mikið fiskát, en það er undantekning að þeir fari mikið úr hárum. Sú fullyrðing að fiskur sé ekki étinn af köttum í náttúrunni og þess vegna ekki kjörfæða er röng. Það eru til kattartegundir sem veiða oft fisk, og þá í grunnu vatni og verður ekki meint af. Ég gef köttunum mínum stundum soðinn fisk svona til að brjóta upp daginn þeirra og þeir þola hann vel. Mjólk er heldur ekki alslæm fyrir ketti. Það er bara þannig að sumir kettir þola hana en aðrir ekki. Ef kötturinn ælir mjólkinni þá á ekki að gefa honum hana, en hún er skaðlaus með öllu fyrir ketti sem þola hana.

Fóður skiptir miklu máli fyrir heilsu kattarins. Fóður sem er selt í dýrabúðum og hjá dýralæknum er yfirleitt gott. Fóður sem er selt í matvöru- verslunum er hreinlega lélegt. Ef fólk trúir ekki mér þá ætti það að lesa á umbúðunum hvað er í því. Hráefnið er mjög lélegt og samsetningin slæm og fullnægir ekki fullkomlega þörfum kattarins. Kettir geta skrimt á þessu fóðri, sérstaklega ef þeir eru útikettir og veiða sér til matar, en innikettir verða aldrei verulega fallegir í feldinum og fara oft mikið úr hárum. Þetta fóður er með svo mikið af uppfylliefnum eins og ösku, að kettirnir skíta helmingi meira heldur en kettir sem fá gæðafóður. Í blautmatnum er líka svo mikið krydd að það veldur því að gómarnir verða eldrauðir, því það ertir þá svo mikið. Kettir geta líka fengið mikinn niðurgang ef þeir borða eingöngu blautmat. Tennur þeirra verða líka mjög lélegar, því þær þurfa ekki að vinna með matinn og tannsteinn kemur eins og skot.

Ég veit að ég hef oft sagt þetta á vefnum, en Solid Gold kattarfóðrið er það langbesta fóður sem ég veit um. Maður sér það bara með því að lesa innihaldslýsinguna. Uppistaðan í fóðrinu er lífrænt ræktað lambakjöt. Það er betra en t.d. kjúklingur vegna þess að það gerir feldinn betri og minnkar hættu á ofnæmi. Ýmiskonar korn er líka notað (skrauthali, hirsi, bygg, brún hrísgrjón). Það eru ekki notaðar sojabaunir, hveiti eða maís, því þær korntegundir eru mjög ofnæmisvaldandi fyrir dýr og valda ýmiskonar heilsuvandamálum. Allt kornið í Solid Gold er lífrænt ræktað og allar korntegundirnar eru hollar, hver á sinn hátt. Það er líka notuð Menhaden síld, sem er nauðsynleg því þar fást omega fitusýrurnar. Það eru engin efnafræðileg rotvarnarefni í S.G. eins og í öðrum kattarmat. Maður getur ímyndað sér hvernig manni myndi líða ef maður myndi bara fá mat sem er fullur af rotvarnarefnum. Það eru líka bláber í matnum, en þau hafa góð áhrif á sjón og heila. Það er ekki viðbætt salt eða sykur í matnum og heldur ekki viðbætt dýrafita eins og er yfirleitt gert með annað fóður. Eina viðbætta fitan er hörfræolía og rapsolía, en þær hafa rétt hlutfall Omega fitusýru. Svo eru viðbætt einhver bætiefni eins og kalíum, amínósýrur og flaxseed olía sem eru nauðsynlegar fyrir ketti. Þar sem þessi matur hefur lágt sýrustig þá minnkar hætta á þvagsteinum. Það er heldur engin aska í matnum þannig að kettirnir skíta minna. Svo er líka fullt af öðrum efnum eins og hvítlaukur, jukka (sem ég veit að veldur minni lykt í skít), steinefnum og vítamínum.

Ég vona að fólk skilji allt sem ég hef skrifað og að ég hafi gert fulla grein fyrir út af hverju þetta fóður er betra en flest annað fóður. Ég þarf ekki annað en að sjá kettina mína til að staðfesta það. Fóðrið hefur aldrei valdið vandræðum. Kettirnir eru mjög heilsuhraustir og augljóslega vel nærðir án þess að vera feitir. Þeir hafa líka stækkað mjög mikið eftir að ég byrjaði með þetta fóður fyrir 3 árum og fara mjög lítið úr hárum. Nú skora ég á kattareigendur að taka upp pokana sem innihalda þeirra eigin kattarmat og lesa innihaldslýsinguna. Takið sérstaklega eftir orðum eins og by-product, ash, poultry fat og þess háttar.

Solid Gold maturinn fæst í Dýrabæ í Hlíðarsmára 9 í Kópavogi (rétt hjá Fiskó og Nings). Það besta af öllu er að hann er með ódýrara gæðafóðri á landinu. Poki sem er 6.8 kg kostar 3190 síðast þegar ég vissi, og poki með um 2 kg, sem er nóg fyrir einn kött í einn mánuð kostar um 1200 kr. Svipaður peningur eins og ef maður myndi kaupa lélegt þurrfóður í matvöruverslun og mikið ódýrari heldur en ef maður keypti blautmat. Ég held að þessi matur sé svona ódýr því konurnar í Dýrabæ leggja svo lítið á hann. Þessi matur er einnig til fyrir hunda og svo eru allskonar bætiefni fyrir ýmis heilbrigðisvandamál til sölu í þessari dýrabúð, sem er líka snyrtistofa fyrir hunda.

Ég ætla að taka fram að þetta er ekki auglýsing, og ég fæ ekkert fyrir að skrifa þetta. Ég hef einfaldlega fundið besta og ódýrasta fóðrið og er eiginlega að boða fagnaðarerindið með smá von um að fólk hætti að gefa köttunum sínum þetta rusl sem er selt í matvörubúðum.

Ég læt þetta nægja í bili, en mun skrifa aftur eitthvað um ketti ef enginn vill halda kettir á Huga lifandi.

Heiðrún