Um ketti... Ég var að surfa netið og sá þar heimasíðu sem heitir “Ráð Dagfinns fyrir kisur”

“Kettir við aldur.”
Villikettir eru heppnir ef þeir ná tveggja ára aldri, en algengt er að heimiliskettir lifi mun lengur. „Eðlilegt“ má teljast að heimiliskettir nái 14 ára aldri en það er ekki óalgengt að þeir geti orðið 16 - 17 ára gamlir. Það telst fremur til undantekninga en reglu ef kettir verða eldri en þetta. Þó er vitað til þess að kettir verði yfir 20 ára gamlir en hæsti aldur sem kettir geta náð er milli 20 og 30 ár

”Hver eru helstu ellimerkin sem koma fram hjá heimilisköttum?“
Margir kettir virðast hafa ótrúlegt viðnám gegn áhrifum ellinnar, en helstu merkin eru þau að kötturinn verður smátt og smátt makráðari, er minna á stjái og sefur langtímum saman á hlýjum stað. Sumir kettir þyngjast en flestir kettir taka að leggja af eftir því sem ellin færist yfir þá og þorsti tekur að ásækja þá svo að þeir þurfa að drekka meira en áður. Algengt er að köttum daprist sjón og heyrn með aldrinum en það þarf ekki að þýða að nauðsynlegt sé að svæfa þá. Með ofurlítilli aukaumhyggju og athygli geta slíkir kettir lært að una sér vel innan vel þekktra veggja heimilisins.

”Hvernig er best að sinna gömlum ketti svo vel fari?“
Gott er að fara reglulega með köttinn í eftirlit til dýralæknis svo að vandamál eða hrumleikamerki uppgötvist sem fyrst. Kemba þarf köttum gjarnan oftar og betur þegar aldurinn færist yfir þá vegna þess að þeim gengur verr að losa sig við hárin sem þeir gleypa er þeir þvo sér. Ekki er óalgengt að klærnar vaxi um of, jafnvel svo mjög að þær taki að bogna inn á við og vaxa inn í þófana. Ef nauðsyn krefur skal klippa þær reglulega, og einkum skal þó gæta þess að gera það í fyrsta sinn vel áður en ástandið er orðið svo slæmt. Kötturinn þarf að eiga hlýtt bæli þar sem ekki er dragsúgur og ekki er gott að láta hann vera úti lengi í einu þegar kalt er í veðri. Eldri kettir þurfa oft að drekka meira en þeir gerðu á yngri árum, og því er nauðsynlegt að þeir hafi alltaf aðgang að nægu fersku vatni.

”Þurfa kettir á sérstöku mataræði að halda þegar þeir eldast?"
Margir kettir eru matvandir og óttalegir gikkir á öllum aldursskeiðum, en ekki er úr vegi að ætla að með aldrinum verði þeir enn vandlátari varðandi það sem þeir láta inn fyrir sínar varir. Gæta ber þess að gefa öldruðum köttum aðeins mat úr góðu hráefni, sem og auðmeltanleg eggjahvítuefni svo sem fiskmeti, kanínukjöt, kjúklinga og soðin egg, ásamt réttu magni af steinefnum. Ef kötturinn tekur að leggja af ætti að reyna að gefa honum feitmeti ásamt kjöti. Margir kettir fúlsa við því, en gott er að reyna að láta þá éta hrísgrjón eða pasta með smjöri, brauð með smjöri, kartöfluflögur og kartöflur. Aldraðir kettir vilja oft éta minna í einu en oftar, og best er að gefa þeim þegar þeir eru svangir fremur en á fyrirfram ákveðnum matmálstímum. Nokkrir ákveðnir sjúkdómar herja á gamla ketti og eigendur þeirra ættu að vera á varðbergi gagnvart fyrstu einkennum þeirra. Það er viturlegt að leita ráðlegginga hjá dýralækni um leið og vart verður við einhver vandamál - lyf sem fást í gæludýrabúðum eða eru heimatilbúin geta verið skaðleg og orðið til þess að vandamálið eða sjúkdómurinn ágerist og nái að festa sig í sessi áður en árangursrík meðhöndlun er hafin.

Well, Þetta var allavega þannig :) …örugglega sumir sem hafa séð þetta. En allavega getur þetta kannski hjálpað einhverjum.