Halló KattaHugarar.

Mér finnst aldrei of oft farið yfir hvað þarf að gera þegar köttur kemur inn á heimilið. Ég fékk mér lítinn kisa fyrir nokkrum vikum síðan og hef lært alveg helling þrátt fyrir að ég hafi haft kött áður. Allt sem maður þarf að kaupa og laga áður en kisi kemur á heimilið getur sparað mikinn tíma og kostnað eftir á. Að fá kettling á heimilið er eins og að fá lítið barn. Maður þarf að passa uppá krílið vegna þess að hann veit ekki hvað má og hvað má ekki. Þess vegna setti ég saman smá lista fyrir verðandi kattaeigendur. Viðbætur og gagnrýni eru vel þegnar.
Heimilið:
1. Eru einhverjir staðir sem kisi má ekki fara? Muna að loka hurðum og svoleiðis þar sem kisi má ekki vera. Venja hann á það strax að þangað má ekki fara.
2. Passa vel upp á að kisi komist ekki í hreinsiefni svo sem gólfbón, sápu, klór og annað þessháttar.
3. Plöntur geta verið eitraðar fyrir ketti og því best að koma þeim fyrir einhverstaðar þar sem þeir ná ekki að naga.
4. Persónulega finnst mér ekki gott að kisi fær að hoppa upp á borð í eldhúsinu vegna hættu á að eldavélin gæti verið heit auk þess sem hann á ekki að komast í matinn okkar. Gott setja þá reglu strax.

Matur:
1. Kisar þrífast best ef það er regla á hlutum eins og matartímum. Að setja upp matartíma fyrir kisann er frekar auðvelt en fer eftir eigendum hvernig þeim er háttað.
2. Best er að kisi fær stað þar sem maturinn og vatnið/mjólkin er ávallt til staðar og þar sem hann getur fengið að borða í næði.
3. Skipta þarf um vatn/mjólk á hverjum degi og þrífa skálina. Ekki myndi ég vilja drekka 3 daga gamalt vatn úr skítugu glasi.
4. Kisar þurfa gras til að getað melt hár sem hann gleypir þegar hann þrífur sig. Hægt er að kaupa kattargras í dýrabúðum.
5. Hvað kisi borðar fer algjörlega eftir eiganda og ketti. Mælt er með því að kettir borði bara þurrmat og drekki vatn en mér finnst það frekar leiðinlegt fyrir kisa svo hann fær blautfóður annan hvern dag.

Aukahlutir:
1. Kisi þarf að eiga stað til að sofa á. Þó að þeir eigi nokkra uppáhaldsstaði þá er gott að setja upp kisurúm einhverstaðar þar sem er hlýtt og gott.
2. Klórubretti er eitt af mikilvægustu hlutunum sem kisi þarf. Ekki er gaman að hann farið að brýna klærnar á fína leðursófanum eða antíkhúsgögnunum.
3. Talandi um klær þá þarf að klippa þær með reglulegu millibili með sérstökum naglaklippum. Þetta er þó mismunandi ef þetta er inni- eða útiköttur.
4. Muna þarf að fara með kisa til dýralæknis svo hann fái allar nauðsynlegar sprautur og verði jafnvel merktur með tattúi eða örflögu.

Enginn þekkir kisann sinn betur en eigandinn svo við erum fyrst að sjá ef eitthvað er að kisa litla. Svo verðum við að muna að gefa þeim mikla ást og umhyggju því þeir gefa svo mikið til baka. Ekkert er eins yndislegt þegar kisi kemur hlaupandi á móti manni þegar maður kemur heim. Hugsum vel um litlu “börnin” okkar.

Kveðja
LittleLilo