Ég er í HÍ og skrifaði ritgerð um mitt aðaláhugamál, ketti :) Ætla ég að birta hér búta úr ritgerðinni ykkur til fróðleiks og skemmtunar, þar kemur margt fram sem er bæði ótrúlegt og skemmtilegt. En einnig sorglegt og leiðinlegt. Þessi partur ber heitið \“Kettir til forna\”
Sagnir um ketti eru til í flestum trúarbrögðum heimsins. Hin Norræna Freyja, systir Freys í Snorra-Eddu reið vagni með tveimur svörtum köttum fyrir og þorðu bændur ekki öðru en að skilja eftir smá mat handa köttum Freyju til að tryggja góða uppskeru. Eftir 7 ára þjónustu við Freyju þakkaði hún þeim fyrir með því að breyta þeim í nornir í gervi svartra katta. Ekki er erfitt að ímynda sér af hverju Freyja hefur akkúrat þessa fararkosti. Í gegnum tíðina hafa kettir verið kenndir við erótík og kynþokka en það er einmitt meginkostur Freyju sjálfrar sem ásynju.
Í Forn-Egyptalandi var stórglæpur að drepa ketti þar sem þeir hlytu að vera guðlegar verur því þeir söfnuðu ljósi sólarinnar í augu sér og geymdu til næturinnar og þegar Persar réðust á Egyptaland þá hengdu þeir ketti á skildi sína svo Egyptar myndu gefast sem fyrst upp…sem og stóðst. Ástæðan var einnig sú að Egyptar máttu ekki móðga gyðjuna Bast sem var kona með kattahöfuð.
Áður en þessi skoðun óx til virðingar höfðu kettir sest að sjálfviljugir vegna mikils músagangs og rotta sem átu upp matarbirgðir og virtust komast inn um öll göt. Þetta vitum við vegna teikninga og rista sem fundist hafa í fornum grafhvelfingum í Egyptalandi sem sýna það svart á hvítu að fyrir u.þ.b. 4.000 árum settust kettir að á egypskum heimilum. Köttum í Egyptalandi var sýnd mikil lotning og þegar köttur dó á heimili áttu heimilismenn að raka af sér augabrúnirnar til að sýna sorg. Kettir voru taldir bera ábyrgð á frjósemi á ökrum ásamt því að vernda lifandi og dauða gegn öllu illu og einnig áttu þeir að stuðla að hamingjusemi mannanna.
Í Egyptalandi til forna var tákn katta kvenkyns. Nægir að nefna kattagyðjuna Bast sem dæmi. Fornar teikningar sem fundist hafa sjást kettir sofandi undir stólum Egypskra kvenna á meðan hundar sitja við stól karlmanna. Sennilegast er að þessi kynhlutverk hafi borist til Norður-Evrópu því hvers vegna ætti vagn Freyju að vera dreginn af tveimur köttum?
Kettir voru sannheilagir á tímabili í Egyptalandi, þeim var haldið í skjóli presta sem túlkuðu allar þeirra hreyfingar sem fyrirboð um framtíðina. Prestarnir fylgdust með öllu mali, þrifum og hreyfingum á veiðihárunum því ekkert mátti fara fram hjá þeim. Á 19. öld fannst hof við ána Níl sem hafði verið tileinkað kattagyðjunni Bast og fundust um 300.000 smurðir og varðveittir kettir ásamt smurðum músum sem sennilega hafa átt að vera faranesti kattanna eftir dauðann. Þess má geta í framhaldi að þeir voru allir sendir til Englands og voru seldir sem áburður á um 20$ tonnið en sem betur fer fengust nokkrir á safn .
Heimildir:
Bachman, Susie. (1997 a). Lore of the Cat: The mystical history of catdom… Skoðað 20. nóvember 2003. Slóðin er: http://www.sniksnak.com/lore.html
Clark, Kimberly. 1999. Feline Folklore, Myths, Legends and Cat Dream Interpretations. Skoðað 20. nóvember 2003. Slóðin er: http://www.jwi.com/folklore.html
Feline History & Folklore. Höfundar ekki getið. 1998. Skoðað 20. nóvember 2003. Slóðin er: http://www.geocities.com/Petsburgh/4840/histfolk.html
Harte, Jeremy. 1997, júní. Pussycat, pussycat, where have you been? At The Edge, 6. bindi. Skoðað 20. nóvember 2003. Slóðin er: http://www.indigogroup.co.uk/edge/pussycat.htm
Hartw ell, Sarah. 1994. Feline Folktails – Cats In Folklore And Superstition. Skoðað 20. nóvember 2003. Slóðin er: http://www.messybeast.com/folktails.htm
‘Saki’ (Hector Munro). 1930. The Short Stories of Saki. London: Bodley Head
Warner, Marina. 1995. From the beast to the blonde: on fairy tales and their tellers. London: Vintage.