Um daginn lenti ég í þeirri reynslu að missa köttinn minn og það er alls ekki skemmtileg reynsla eins og sum ykkar þekkja. Ég ætlaði ekki í fyrstu að skrifa grein um hann því mér fannst engin ástæða til þess. Ég ætla að kynna ykkur aðeins fyrir kisunni minni áður en ég held áfram.
Milli jóla og nýárs þegar ég var 10 ára þá fórum við inn á heimili þar sem við vissum að þar voru kettlingar sem vantaði heimili. Enn voru eftir tveir kettlingar og var annar frátekinn. Anna þeirra kom hlaupandi á móti okkur þegar við komum og snarsneri sér við og þaut undir sófa. Það var kisan mín. Mamma tók hana upp og sagði að við myndum taka hana og nefna hana Snúllu.
Síðan liðu tæp fjórtán ár og Snúlla var flutt úr húsinu með yngri systur minni. Ég hafði tekið hana einu sinni með mér þegar ég flutti að heiman en svo gerðist systir mín fóstra hennar þegar ég flutti heim aftur.
Eitt kvöldið kom hún ekki heim og það þykir mjög óvenjulegt því hún var orðin svo gömul að hún fór aldrei langt. Um leið og ég frétti af þessu þá vissi ég að eitthvað hefði komið fyrir hana og kom það á daginn að hún hefði sennilega orðið fyrir bíl, eða það hélt dýralæknirinn og sagði að löggan hefði komið með hana dauða upp á spítala. Systir mín tók hana heim og við jarðsettum hana í garði foreldra okkar.
Um daginn kom mamma heim með pakka sem var stílaður á systur mína. Ég var orðin ansi forvitin þegar systir mín kom loks í heimsókn í gær og gat opnað pakkann. Innihaldið var gullfallegur kross úr viði með tréplötu festan við og stóð á nafnið Snúlla. Fylgdi með samúðarkort til okkar allra og var pakkinn frá ömmu okkar. Við urðum mjög hrærðar systurnar og verður krossinn settur niður þegar búið verður að bæta við ártölin.
Mig langaði bara að segja ykkur þetta.
lula
Brostu framan í heiminn og þá mun heimurinn brosa við þér.