Nr. 622/1999
SAMÞYKKT
um kattahald í Reykjavík.
1. gr.
Kattahald í Reykjavík sætir eftirfarandi takmörkunum.
2. gr.
Alla ketti skal merkja með ól um hálsinn, eða á annan sambærilegan hátt þar sem fram koma upplýsingar um eiganda, heimilisfang og símanúmer eða örmerkingu skv. stöðlum Alþjóða staðalráðsins (ISO 11784 eða 11785).
3. gr.
Um kattahald í fjöleignarhúsum fer að 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
4. gr.
Eigendum eða umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum að takmarka útiveru katta.
5. gr.
Eigi má hleypa köttum inn í svæði þau, sem um ræðir í III.-V. og XI.-XVII. kafla heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 með síðari breytingum og inn á staði þar sem framleiðsla og dreifing matvæla fer fram, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.
6. gr.
Ketti skal ormahreinsa og bólusetja reglulega samkvæmt leiðbeiningum dýralækna.
7. gr.
Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn.
8. gr
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Starfsmenn Meindýravarna Reykjavíkurborgar starfa í umboði heilbrigðisnefndar og er sem slíkum heimilt að fanga ketti.
9. gr.
Borgaryfirvöld skulu gera ráðstafanir til útrýmingar á villi- eða flækingsköttum. Í því skyni er heimilt að koma fyrir búrum, agni eða sambærilegum tækjum til að fanga ketti enda sé framkvæmdin auglýst með áberandi hætti með sjö daga fyrirvara og kattaeigendum þannig gert kleift að halda köttum sínum inni meðan sú aðgerð stendur yfir.
10. gr.
Sé köttur fangaður er skylt að geyma hann í sjö daga. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan þess tíma skal honum ráðstafað til nýs ábyrgs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða aflífaður. Ef eigandi gefur sig fram skal hann greiða áfallinn kostnað.
11. gr.
Ef kvartað er ítrekað undan ágangi katta á tilteknu svæði er starfsmönnum Meindýravarna Reykjavíkurborgar heimilt að handsama þá í búr og flytja í dýrageymslu að undangenginni auglýsingu, sem birtast skal a.m.k. tveimur sólarhringum áður en framkvæmdin hefst.
12. gr.
Um brot á samþykkt þessari skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
13. gr.
Framangreind samþykkt borgarstjórnar staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast gildi þegar við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 15. september 1999.
F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.