Mér finnst tígrisdýr ein flottustu dýr í heiminum og langar til að deila með ykkur smá fróðleik um þau:
Tígrisdýr eru stærst allra núlifandi kattardýra. Skrokklengd tígrisdýra er á bilinu 1,4-2,8 m, lengd rófu er á bilinu 0,6-0,95 m, hæð herðakambs er 0,65-1,15 m og þyngd þeirra er u.þ.b. 65-306 kg.
Munur á kynjunum er líka talsverður. Karldýr eru venjulega stærri en kvendýr og stærstu karldýrin í suðri eru álíka að stærð og minnstu kvendýr í Síberíu. Auk þess vex vel merkjanlegur hálskragi á karldýrinu.
Sterklegir fætur og sveigjanlegur hryggur gera tígrisdýrum kleift að drepa stóra bráð með skyndiárás úr lítilli fjarlægð. Tígrisdýr geta stokkið 10 m í einu stökki.
Hausinn á tígrisdýrum er stuttur og ávalur, og augun vísa fram. Kjálkarnir eru stuttir en öflugir og yfirleitt hafa þau 30 tennur. Feldur tígrisdýra er mjög mismunandi. Liturinn getur verið alveg frá gulum til rauðbrúns. Tígrisdýr í norðri eru líka yfirleitt með ljósari og þykkari feld en þau í suðri. Aðalkennimerki tígrisdýra er vafalaust rendurnar á feldinum. Þær eru á þverveginn og geta verið svartar, brúnar eða gráar. Rákamunstur tígrisdýra fellur vel inn í bakgrunninn og gerir þeim kleift að leynast í trjágróðri og háu grasi. En það er auk þess hægt að þekkja tígrisdýr í sundur á röndunum, þar sem þær eru mismunandi eftir hverju dýri fyrir sig.
Kviður tígrisdýra er hvítur eða kremaður, rófan er hringuð og eyrun eru svört með hvítum depli í miðjunni. Þegar tígrisdýr ógnar öðru tígrisdýri, snýr það eyrunum við svo að bakhliðin snúi fram, til að sýna hvítu deplana.
Hvít tígrisdýr eru líka til, en það er mjög sjaldgæft að þau lifi villt. Þau eru hins vegar vel þekkt í flestum meiriháttar dýragörðum. Þau eru með blá augu og feldurinn er hvítur eða ljósgrár með gráum eða brúnum röndum. Þau eru ekki hvítingjar eða albínóar þó að þeir séu líka til. Sumir halda því fram að hafa séð svört tígrisdýr, en tilvist þeirra hefur aldrei verið sönnuð.
Út í náttúrunni, lifa tígrisdýr í u.þ.b. 15 ár en í dýragörðum lifa þau í u.þ.b. 16-18 ár. Elsta tigrisdýrið sem uppi hefur verið hét Stellina, og lifði í dýragarði í Róm. Það varð 25 ára gamalt.