Læður geta eignast nokkur got af kettlingum á ári hverju allt þeirra líf. Læður verða breima með reglulegu millibili árið um kring, þó oft ekki um dimmustu vetrarmánuðina þó reyndar sé engin trygging fyrir því . Nokkrar kattategundir þó einkum Síams og Burmar verða breima með reglulegu millibili allan ársins hring. Það tímabil sem læðurnar eru breima getur verið all misjafnt, frá 3 - 10 dögum. Ef þær verða ekki kettlingafullar á þessum tíma líða oftast fjórar vikur þangað til nýr hringur hefst. Þetta tímabil er misjafnt milli einstaklingat og sérstaklega “orientalkynin” breima með styttra millibili. Breima læða verður hávaðasamari og kelnari en venjulega. Hún veltir sér mikið á gólfinu og lyftir afturendanum ef henni er strokið. Oft kemur fyrir að fólk heldur að þessi breytta hegðun stafi af því kötturinn sé hreinlega veikur en svo er ekki, allt á þetta sér eðlilegar skýringar.
Best er að láta “taka læðuna úr sambandi” nema fólk treysti sér að finna heimili fyrir allan þennan fjölda kettlinga eða er með kattaræktun. Það má ekki gleymast að þrátt fyrir að læðunni sé ekki hleypt út heldur hún kynhvötinni og getur haldið vöku fyrir heimilsfólki svo ekki sé minnst á nágrananna. Breima læða grípur hvert tækifæri sem hún fær til að reyna að skreppa út sem getur leitt til stefnumóts við hverfisfressinn!
Hægt er að gefa læðum getnaðarvarnarpillur einu sinni í viku eða sprauta læðurnar á 4- 5 mánaða fresti með getnaðarvarnalyfi. Hafa verður í huga að til þess að sprauturnar eða pillurnar virki verður að gæta fyllstu samviskusemi á þeim tíma er dýralæknir segir til um á milli inngjafa eða sprautumeðferðar. Mjög algengt er að það gleymist að gefa pilluna með þeim afleiðingum að læða verður kettlingafull.

Ef kisa verður kettlingafull er algengasti meðgöngutími 63- 68 dagar en getur þó verið milli 60 og 70 dagar. Á þessu tíma getur orðið einhver breyting á hegðunarmynstri læðunar. Hún getur þarfnast ákaflega mikillar athygli eða hún fer meira sínar eigin leiðir. Þegar fer að styttast í fæðinguna fer kisa að leita sér að bæli. Oft er hægt að létta undir með læðunni og hjálpa henni að búa til fleti t.d úr pappakassa og gömlum handklæðum og láta á hlýjan og rólegan stað. Tiltölulega sjaldgæft er að læður eigi við einhverja fæðingarörðuleika að stríða.
Stöku sinnum kemur þó fyrir að gripa þarf inn í og hjálpa læðunum. Það getur verið að grind læðunnar sé of þröng, að kettlingarnir liggi illa eða læðan verði hreinlega uppgefin ef fæðing gengur illa eða ef kettlingar eru mjög margir. Af áðurgreindum ástæðum getur verið gott að fylgjast með læðunni meðan á fæðingu stendur. Nauðsynlegt er að hringja í dýralækni ef læðan hefur miklar hríðir og ekkert gerist eða ef kettlingur er fastur í fæðingarveginum. Ef upp koma einhver vafaatriði er réttast að hringja í dýralækni og fá nánari upplýsingar. Ef til þess kemur að hjálpa þarf læðunni og toga kettlingana úr fæðingarveginum munið þá eftir að fara að aöllu með gát og rífa naflastrengin og skilja eftir ca 2 cm bút á kettlingnum. Það á alls ekki að klippa á naflastrenginn það getur orsasakað blæðingar. Ef kettlingurinn andar ekki sjálfur gæti verið vökvi lungum hans. Takið kettlinginn í lófann og hallið kettlingnum í lóðrétta stöðu með höfuðið niður og hristið hann varlega til að reyna að fá vökvann úr lungunum. Strjúkið hnakka og kvið kettlingsins með handklæði til að reyna að örva öndunina. Stundum getur verið gott að gefa kettlingnum vænan selbita í nasirnar við það fer öndunin oft í gang. Þegar tekist hefur að koma önduninni i gang skilið þá kettlingnum til læðunnar og andið léttar !