Hver eru helstu ellimerkin sem koma fram hjá heimilisköttum?
Margir kettir virðast hafa ótrúlegt viðnám gegn áhrifum ellinnar, en helstu merkin eru þau að kötturinn verður smátt og smátt makráðari, er minna á stjái og sefur langtímum saman á hlýjum stað. Sumir kettir þyngjast en flestir kettir taka að leggja af eftir því sem ellin færist yfir þá og þorsti tekur að ásækja þá svo að þeir þurfa að drekka meira en áður. Algengt er að köttum daprist sjón og heyrn með aldrinum en það þarf ekki að þýða að nauðsynlegt sé að svæfa þá. Með ofurlítilli aukaumhyggju og athygli geta slíkir kettir lært að una sér vel innan vel þekktra veggja heimilisins.
Hvernig er best að sinna gömlum ketti svo vel fari?
Gott er að fara reglulega með köttinn í eftirlit til dýralæknis svo að vandamál eða hrumleikamerki uppgötvist sem fyrst. Kemba þarf köttum gjarnan oftar og betur þegar aldurinn færist yfir þá vegna þess að þeim gengur verr að losa sig við hárin sem þeir gleypa er þeir þvo sér. Ekki er óalgengt að klærnar vaxi um of, jafnvel svo mjög að þær taki að bogna inn á við og vaxa inn í þófana. Ef nauðsyn krefur skal klippa þær reglulega, og einkum skal þó gæta þess að gera það í fyrsta sinn vel áður en ástandið er orðið svo slæmt. Kötturinn þarf að eiga hlýtt bæli þar sem ekki er dragsúgur og ekki er gott að láta hann vera úti lengi í einu þegar kalt er í veðri. Eldri kettir þurfa oft að drekka meira en þeir gerðu á yngri árum, og því er nauðsynlegt að þeir hafi alltaf aðgang að nægu fersku vatni.
kv.lakkris