Mér finnst alveg ferlegt að horfa upp á fólk með ofnæmi neita sér smátt og smátt um að taka þátt í lífinu.
Ein stelpa sem ég þekki er með ofnæmi fyrir öllu mögulegu, köttum, hundum, hestum, grasi, flestum tegundum af trjáfrjói, appelsínum og tómötum, hnetum, og mörgu fleiru.
Ég held að mér sé óhætt að segja að ekkert af þessu ofnæmi hafi hún haft sem barn - ég ólst svo að segja upp með henni og tók aldrei eftir neinu. En svo fór þetta að koma upp og þá þverneitaði hún að taka þátt í athöfnum unga fólksins um sumarið, hún fór ekki í unglingavinnuna, var lítið úti almennt, fór ekki með okkur hinum í hestaferðir og smátt og smátt þróaðist ofnæmið hennar, sem í upphafi var aðeins óþol, upp í alvarleg einkenni sem ágerðust ár frá ári.
Það kaldhæðnislega í þessu er það að hún býr á sveitabæ og ég er nokkuð viss um að hún gæti lagast eitthvað við að taka þátt í almennum störfum þar, heyskap, umhirðu um dýrin og þess háttar.
Ég byrjaði sjálf að hafa ofnæmi þegar ég var 13 ára og get satt að segja orðið ansi slæm ef ég passa mig ekki. En mér finnst of mikil fórn að sleppa því að vera úti á sumrin og umgangast dýr. Ég hef haft það viðhorf að gleðin sem tengist þessu sé mun meira virði en óþægindin af hnerra, nefrennsli og viðkvæmum augum.
Ef ég tek upp köttinn minn get ég vel knúsað hann og dúllað með hann, en ég þarf að passa mig á að þvo mér um hendurnar áður en ég fer að káfa eitthvað í augun á mér. Það er bara heilbrigð skynsemi. Ef ég fer í útilegu gildir það sama, ég veit að ég er með ofnæmi fyrir grasi, svo að ég ríf náttúrulega ekki upp handfylli af grasi og nudda því í andlitið á mér.
Þegar þetta byrjaði hjá mér var þetta mun verra, ég byrjaði að hnerra bara ef það var köttur í sama húsi og ég, og var meira og minna kvefuð allt sumarið. En ég neitaði að láta þetta eyðileggja fyrir mér hluti sem ég hef gaman af, og með tímanum fóru einkennin minnkandi og ég lærði að lifa með þessu.
Mér finnst fólk taka því allt of alvarlega að vera með ofnæmi, almennt séð held ég að fólk nú til dags kunni hreinlega ekki að díla við það að það hafi einhver óþægindi, við erum orðin svo spillt. Og ekki hjálpar læknastéttin beinlínis til, ég er þeirrar skoðunar að margir læknar ýti beinlínis undir suma sjúkdóma hjá okkur, -þeir hafa náttúrulega hag í því að skrifa út sem flesta lyfseðla. En það er allt önnur Ella…
Varðandi það að fá allt í einu ofnæmi er það vissulega hægt. Ónæmiskerfið okkar gengur í gegnum sífelldar breytingar ævina á enda.
En það er líka hægt að lifa með því, það er engin ástæða til að hætta að “vera með” í lífinu.
Afsakið þessa langloku. En ég er viss um að ef fólk hætti þessum aumingjaskap varðandi flestallt í nútímasamfélagi myndi það leysa fjölmörg vandamál.