“Er hægt að temja ketti?”
Þessa spurningu hef ég heyrt oft um hana Línu.
Lína er kolsvartur köttur með glampandi augu. Þar sem ég bý ekki sem stendur á heimili hennar fæ ég ekki alltaf að verða aðnjótandi hlýju hennar. En eitt fer mikið í taugarnar á mér. Ég hef kennt Línu að setjast, liggja, koma og sýna mér hvað hún vill og þegar fólk sér þetta segir það annað hvort “Er hægt að temja ketti?” eða “Kötturinn hegðar sér eins og hundur!”
Þetta er hreinn og beinn dónaskapur af fólki að halda að fyrst kötturinn getur gert hluti sem hundur á að kunna (á hund á núverandi heimili mínu), og þá vil ég ítreka að hann á að kunna þetta, annars er hann óuppalinn, þá hljóti eitthvað að vera mjög merkilegt og einstakt við þennan kött.
Hafið þið ekki fengið þetta viðmót að kettir eigi að vera: Sjálfstæðir svo úr hófi gegnir, óstýrilátir, ekki hægt að kennar þeim, þurfi litla sem enga ástúð, frekir, ekki heimahollir og þurfi mjög lítið að sinna þeim?
Hafið þið ekki fengið svona viðmót?
Dæmi um þennan hugsunarhátt er að einn sem ég þekki fer alltaf með kisuna sína í göngutúr og þá auðvitað í bandi. Þessi kunningi minn hefur margoft verið spurður hvort ekki sé allt í lagi með hann, kettir eigi ekki að vera í bandi, einungis hundar!
Eitt er víst. Lína er bara hún sjálf, ekki afbrigði af hundi og þegar við liggjum saman stundum á kvöldin og ég heyri hana mala í fanginu á mér meðan maðurinn minn kúrir hinum megin við mig, þá er ég heppnasta manneskja í heimi.