Ef marka má frásagnir fólks sem umgengst dýr mikið leikur enginn vafi á því að kettir og önnur spendýr geta lent í geðlægð og jafnvel þjáðst af þunglyndi.

Til marks um þetta nefna gæludýraeigendur að þegar miklar breytingar verða á heimilishögum fólks, til dæmis við andlát eða flutninga, verður hegðun katta önnur. Þeir hafa minni matarlyst, árásarhneigð þeirra vex, þeir snyrta sig minna en ella og sýna öllu ytra umhverfi minni áhuga en vanalega. Margir starfsmenn rannsóknarstofnana hafa orðið vitni að afbrigðilegri hegðun meðal tilraunadýra, svo sem sjálfsköðun og sauráti.

Menn sem hafa reynslu af rekstri dýragarða segja að hegðun dýra í dýragörðum nútímans sé allt önnur en áður fyrr. Dýrin eru ekki lengur geymd í litlum hólfum með rimlum og steinsteyptu gólfi heldur er reynt að hafa umhverfi þeirra rúmgott og eins náttúrlegt og hægt er. Þeir sem hafa aldur til muna eflaust eftir þunglyndu ljónunum í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Dýrin í dýragörðum nútímans eru virkari og leika sér mikið, en áður fyrr voru þau árásargjörn og löt, en að mati atferlisfræðinga benti það hreinlega til þunglyndis.



Fyrir fáeinum árum kom höfundur þessa svars við í dýragarði í evrópskri borg þar sem tígrisdýr var geymt á litlum reit og gekk stöðugt í hringi. Samkvæmt dýralækni þá bendir slíkt atferli til þunglyndis líkt og fangar sem hafðir eru í þröngum klefum geta þjáðst af.

Mönnum hefur orðið ljóst, sérstaklega í tengslum við alla umræðu um “mannúðlega meðferð” á dýrum, að þau eru ekki sálar- og tilfinningalaus heldur búa yfir flóknu tilfinningalífi líkt og mannfólkið. Menn sem hafa reynt að réttlæta slæma meðferð á dýrum hafa einmitt gripið til þeirrar röksemdar að dýr skorti allar tilfinningar. Ýmis fyrirtæki í lyfja- og snyrtiiðnaði hafa reynt að ýta undir slík rök en kröfur um aðbúnað tilraunadýra hafa engu að síður farið vaxandi. Mörg dýraverndunarsamtök hafa barist gegn notkun tilraunadýra, sérstaklega í snyrtivörugeiranum. Margar ógeðfelldar tilraunir hafa verið gerðar á dýrum í þeim iðnaði og dýravinir benda á að þær þjóni ekki beint hagsmunum mannkyns eins og hægt er að færa rök fyrir um tilraunir í lyfjaiðnaði.

Orsök þunglyndis í dýrum, líkt og hjá þunglyndri manneskju, er truflun á taugaboðefnabúskap í heila. Þessi búskapur er mjög áþekkur í heilum flestra spendýra. En hvað á að gera fyrir þunglyndan kött? Dýralæknar benda gæludýraeigendum á að sinna dýrinu betur, sýna því ástúð og umhyggju, en eftir því sem best er vitað er enn ekki hægt að kaupa “gleðipillur” fyrir ketti eða önnur dýr í Bandaríkjunum! Fyrst er þó nauðsynlegt að ganga úr skugga um það að gæludýrið sé ekki haldið neinum líkamlegum sjúkdómi sem getur haft slík áhrif á lundarfar dýrsins.

Tekið af vísindavef Háskóla Íslands
Moo. Moo. Moo.