Nú hefur það verið rætt áður á þessu áhugamáli að Whiskas matur sé ekkert sérlega góður ef ekki bara hreinlega óhollur eða jafnvel hættulegur fyrir ketti. Hins vegar var ég að fá aðrar upplýsingar í dag.
Ég var nefnilega að tala við konu sem ég þekki sem er búin að vera með ketti í mörg ár. Annar kötturinn sem hún á núna hefur stundum fengið nýrnasteina og þess vegna var henni ráðlagt af dýralækninum að hafa hann á sérstöku fæði. Það þýðir náttúrulega að þeir eru það báðir vegna þess að þeir éta matinn frá hverjum öðrum.
Alla vega var hún svo alltaf að kaupa þennan sérstaka mat af dýralækninum á okurverði en svo kemur það upp að hún er hálf blönk á tímabili og er eitthvað að kvarta yfir hvað maturinn sé dýr. Dýralæknirinn sér þá aumur á henni og hann trúir henni fyrir því að þessi matur sem hann er að selja sé framleiddur fyrir dýralæknana af Whiskas en þeir selja hann undir sínu merki í sínum umbúðum. Hann sagði henni líka að þetta væri sami matur og er seldur í búðum undir nafninu Whiskas Perfect Balance, miklu ódýrari.
Hún alla vega skipti yfir í Whiskas Perfect Balance og sparaði stórfé og segist ekki hafa séð annað en að þetta hafi verið alveg rétt að þetta væri sami maturinn, alla vega gekk alveg jafnvel með þessu að halda niðri nýrnasteinunum hjá kettinum.
Ég ætla að prófa þennan mat fyrir minn kött og sjá hvernig gengur. Ef einhver veit annað, þá endilega láta mig vita :)