Mig langaði að segja ykkur frá lórunum mínum og raunum þeirra. Við eigum 3 kisur, Snót og Meyju sem eru systur og jafn gamlar og Hnoðra sem kom seinna inn á heimilið. Þetta eru nú bara svona “venjulegar” kisur, ekki ræktaðar eða neitt en okkur finnst þau samt þau með þeim bestu í heimi.
Snót og Meyja eru 3 ára en Hnoðri er 1 árs. Við erum kannski búin að ala þau of vel upp en vandamálið þeirra allra er að þau eru algerar bleyður. Þau flýja alltaf öll slagsmál, en þau eru tíð í okkar hverfi. Meira að segja þegar ókunnugur kisi kemur að snuðra inn til okkar flýja þau og hvæsa bara. Samt eru Snót og Meyja gríðarstórar (en ekki feitar samt) 4,5 kg. hvor.
Það hafa komið fress inn til okkar og merkt sér teppið í forstofunni og þau gera ekki neitt.
Hins vegar er Hnoðri allra verstur, hann er svo taugaveiklaður að hann þolir ekki fólk, hann er meira að segja stressaður í kringum okkur, eigendurna (samt minna en aðra). Hann kom seint inn á heimilið eins og ég sagði og það voru engin fagnaðarlæti þegar hann kom. Eldri systurnar hvæstu á hann í 2-3 mánuði og Meyja er ekki enn sátt, alltaf þegar hann nálgast hana hvæsir hún og urrar og reynir að ráðast á hann.
Það eru fleiri vandamál sem fylgja þessum músarhjörtum mínum, Snót hefur fengið bitsár tvisvar sinnum og Meyja einu sinni. Þá þurftum við að gefa þeim sýklalyf og setja á þær kraga sem var nú frekar óskemmtilegt. Nú síðast þegar Snót fór á sýklalyf varð hún svo veik í maganum að hún ældi stanslaust í tvo daga. Þá þurftum við að sprauta upp í hana rjóma tvisvar sinnum sem hún var EKKI kát með.
Mig langaði að athuga hvort fleiri ættu ketti með músarhjarta og hvort hægt væri að venja þau af þessu, sérstaklega að Meyja hvæsi og urri á Hnoðra.
Öll ráð eru vel þegin, ef þau eru góð og gild.

Með kveðju, áhyggjufull og þreytt kisumamma
Catwoman