Þessar heimildir fann ég á netinu og man ég ekki alveg á hvaða heimasíðu en ég held að það sé skemmtilegt að lesa þetta ef maður hefur nógan tíma. Þetta eru upplýsingar um bæði kynin, högna og læður
Hvers vegna á að gelda högna?
Högnar fá með aldrinum einkenni sem gerir mönnum erfitt fyrir að halda þá sem gæludýr. Eitt af þessu er mun sterkari hneigð meðal högna en læða til að merkja sér svæði með því að míga umhverfis þau (hland högna gefur frá sér afar sterkan þef) og tilhneigingu til að tileinka sér stór svæði og verja þau af hörku gagnvart öðrum köttum. Þetta þýðir að högnar þvælast mikið að heiman frá sér, oft í nokkra daga í einu, og lenda reglulega í útistöðum og slagsmálum við aðra ketti. Þetta þýðir ekki aðeins að högnar séu líklegir til að fá sár sem þeir fá í slagsmálum, heldur baka þeir líka eigendum sínum óvinsældir nágrannanna með því að ráðast á ketti þeirra. Allir kettir, hvors kyns sem þeir eru og hvort sem þeir eru ófrjóir eða ekki, eru líklegir til að verja umráðasvæði sín, en þetta vandamál er langmest þar sem um ógelta högna er að ræða.
Breimandi kettir í þéttbýli halda oft vöku fyrir fólki og gerir katti óvinsæla hjá mörgum.
Heimiliskötturinn er bestur vanaður. Geltur köttur er líklegri til að vera heilbrigðari en ógeltur köttur.
Hvað á köttur að vera gamall þegar hann er geltur?
Hægt er að gelda ketti á hvaða aldri sem er, en yfirleitt er mælt með því að það sé gert um fimm eða sex mánaða aldur. Þá hefur kötturinn náð ákveðnum þroska en er varla orðinn nógu gamall til að sýna högnastæla.
Breytast eðliseiginleikar kattarins við geldingu?
Geltur köttur mun að sjálfsögðu ekki fá útlit og eiginleika frjós högna, en gelding ætti ekki að breyta skapgerð hans og eðliseiginleikum. Þar sem geltir högnar eru ekki eins uppteknir af því að verja svæði sín og ógeltir, hafa þeir tilhneigingu til að verða makráðir og fitna oft. Flestir högnar sem haldnir eru sem gæludýr eru reyndar geltir, og veita eigendum sínum yfirleitt mikla ánægju og félagsskap.
Getur verið hættulegt að gelda ketti?
Þar sem hvort heldur ófrjósemisaðgerð á læðum eða gelding högna krefst svæfingar getur nokkur áhætta fylgt slíkum aðgerðum. Upp geta komið vandamál sem eiga rætur að rekja til svæfingarinnar, svo sem innvortis blæðingar í kjölfar aðgerðarinnar eða sýkingar. Þó að hver sá sem lætur gæludýr sitt gangast undir aðgerð verði að vera undir það búinn að einhver áhætta geti verið því samfara, skal lögð á það áhersla að aðgerðir á ungum og heilbrigðum köttum takast í langflestum tilfellum mjög vel og vandamál í kjölfar þeirra eru afar sjaldgæf. Það má staðhæfa að meiri áhætta geti fylgt því fyrir læðu að ganga með og eignast kettlinga en áhættan sem fylgir ófrjósemisaðgerð.
Ófrjósemisaðgerð.
Með nútíma deyfingaraðferðum og tækni við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Skurðurinn er yfirleitt tekinn á síðu læðunnar eða á miðjum kvið, en er yfirleitt mjög lítill og grær á skömmum tíma. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist, og eftir um það bil vikutíma má taka saumana og þá er feldurinn yfirleitt farinn að vaxa.
Ætti að leyfa læðum að eignast kettlinga einu sinni áður en þær eru gerðar ófrjóar?
Vilji maður láta læðuna sína eignast kettlinga til að hafa upplifað það eða vegna þess að maður vill eignast kettling undan henni, er ekkert við því að segja. Á hinn bóginn skiptir það engu fyrir læðuna hvort hún eignast kettlinga einu sinni eða er gerð ófrjó áður en hún verður breima í fyrsta sinn, svo að það er engin ástæða til þess hennar vegna.
Mun læða sem búið er að gera ófrjóa verða breima áfram?
Yfirleitt ekki. Við ófrjósemisaðgerð eru eggjastokkarnir eru fjarlægðir ásamt leginu og þetta kemur yfirleitt í veg fyrir að þær verði breima. Þó koma fram slík einkenni hjá stöku læðum á ákveðnum árstímum þótt þau séu yfirleitt mjög veik. Þetta orsakast líklega af því að aðrir líkamshlutar framleiði kvenhormón í litlum mæli.
Hvernig á að sinna læðum eftir ófrjósemisaðgerð?
Það má taka læðuna heim sama dag og aðgerðin er framkvæmd ef allt hefur gengið að óskum. Best er að fylgja vel þeim leiðbeiningum sem dýralæknirinn gefur þegar læðan er útskrifuð og engin ástæða er til að hika við að hringja í dýralækninn og leita upplýsinga ef eitthvað veldur manni áhyggjum. Flestir kettir sofa mikið fyrsta sólarhringinn eftir aðgerðina, en aðrir virðast ná sér ótrúlega fljótt. Sumir kettir gætu verið með slen í nokkra daga. Best er að skoða skurðinn einu sinni eða tvisvar á dag og hafa skal samband við dýralækninn ef sýking kemur í sárið, það bólgnar eða fer að vella úr því. Flestir kettir sleikja saumana eftir aðgerð, en sjaldgæft er að þeim takist að taka þá úr.
Kv. Hallat