Flestar ef ekki allar tegundir af kattaættinni (Felidae), en þær eru taldar vera um það bil 36, virðast geta malað. Ekki er vitað til að önnur dýr mali og eru menn þá meðtaldir.
Heimiliskettir mala samfellt, það er að segja ekki er hægt að greina neina breytingu þegar dýrið andar að sér eða frá sér. Hið sama á við um gaupuna en aftur á móti mala ljón aðeins þegar þau anda frá sér.
Í flestum tilvikum virðist mega setja samasemmerki milli vellíðunar og þess að kattardýr mali. Heimiliskettir mala gjarnan þegar þeir liggja í kjöltu eiganda síns. Kvendýr allra tegundanna mala þegar afkvæmin sjúga þær. Ljónynjur mala einnig þegar þær eru í bríma, það er þegar þær eru móttækilegar fyrir athygli karldýrs. Þótt merkilegt megi virðast mala læður oft meðan þær eru að gjóta þótt ekki virðist líklegt að þeim þyki það sérstaklega gott. Þá munu vera dæmi um að særðir kettir mali. Merkingin er því fremur óljós.
Í rauninni er ekki vitað hvernig kettir fara að því að að mala. Það virðist einfaldlega ekki hafa verið rannsakað. Sennilega hefur ekki tekist að sannfæra rannsóknarsjóði um að slíkt verkefni sé þess virði að styrkja það! Tvær tilgátur hafa þó verið settar fram. Sumir telja að malið sé framkallað af raddböndum og að loftstreymi um þau framkalli þetta sérkennilega hljóð. Aðrir telja malið stafa af titringi í aðalbláæð í brjóstholi