Minning um Grána Hann Gráni minn dó í morgunn, það var keyrt yfir hann og kom lögreglan með líkamann til okkar. Maðurinn minn jarðaði hann í garðinum okkar og plantaði fallegu barrtréi yfir.

Hann fæddist 1. september 2001 og var því bara nýorðin eins árs. Hann var vanur að sofa uppí rúmi hjá mér og oft lá hann á koddanum mínum og saug á mér eyrnasnepilinn og svo sofnaði hann og kúrði í hálsakotinu mínu. Hann var svakaleg veiðikló, veiddi bæði fugla og mýs.

Fjölskyldan mín er í uppnámi, hin kisan mín hún Matta 10 ára er voða skrýtin, fer um allt mjálmandi og hundurinn minn hún Doppa getur ekki hætt að knúsa okkar. Doppa reyndi að ýta við honum á meðan var verið að grafa hann og skyldi ekkert í því af hverju hann stóð ekki upp og byrjaði að leika. Jafnvægið er farið, þrjú dýr og þrjár manneskjur, þrír kallar og þrjár konur.

Að vera með útikött er ákveðin áhætta og nú brást hún mér. Héðan í frá verða allir kettir inni. Öllum kattalúgum verður lokað og læst. Ég mun ekki meika það að missa fleiri ketti. Dagurinn í dag hefur verið hræðilegur. Ég sakna þess svo að vita ekki af honum og Doppu uppí rúmi að hita sængina mína áður en ég fer að sofa. Ég sakna líka að heyra ekki í bjöllunum hans þegar ég set mat í dallinn hjá Möttu. Ég á eftir að sakna þess að hafa hann ekki á fótunum á mér í nótt og allar nætur.

Núna er Gráni farinn yfir Regnbogabrúna, á staðinn sem allar kisur enda á. Þar er fullt af öðrum kisum til að leika, fuglum til að veiða og músum til að elta. Það eru einnig manneskjur sem sjá til þess að kisurnar fái fullt af klóri og knúsi.

Elsku Gráni minn, ég mun aldrei gleyma þér.

Erla