Mælir við skiptinguna er hægt að fá bæði hjá Bílabúð Benna og í Bílanaust. Ég keypti B&M mæli hjá Benna í fyrra (eða var það í hitteðfyra humm :/ ) og hann kostaði nokkra þúsundkalla. Þeir eiga einnig Autometer mæla sem eru líka mjög góðir (smekksatriði hvern menn velja).
Það tekur enga stund að skella þessu í. Það eru hinsvegar nokkur sjónarmið hvað mælirinn á að mæla.
Í leiðbeiningum frá B&M segir að T-stykkið eigi að fara á lögnina sem kemur frá kæli. Rökin fyrir því er að það er olían sem smyr skiptinguna og skiptir mestu máli. Flestir eru á því að hann eigi lítið erindi á lögnina frá skiptingunni. Flestir jeppamenn sem ég þekki, hérlendis og erlendis eru hinsvegar á því að best sé að setja skynjarann í pönnuna á skiptingunni. Í Fourwheeler fóru þeir bil beggja, voru með einn mæli og rofa sem skipti á milli tveggja skynjara.
Ég setti hann upp eins og B&M ráðlagði en þar sem að ég er með svo stórann kæli þá sýnir mælirinn alltaf að skiptingin sé köld.
Ég keypti mjög stórann “Stacked Plates” kæli hjá Benna og mig minnir að hann hafi kostað um 17.000. Þeir hjá Benna héldu að hann væri alltof stór (höfðu ekki séð svo stórann kæli) en þeir í Stál og stönzum voru mínir ráðgjafar. Í um 90% tilfella sem skipting fer er það vegna of mikils hita. Það er líka hægt að fá minni og ódýrari kæla, sem duga örugglega fínt í léttan bíl eins og þinn (ég er með Blazer K5 sem er töluvert þyngri).
Það er ekkert mál að setja kæli í. Sumir nota bensli sem fylgja en ég valdi að bolta hann við bílinn (mælt með því). Það hefur örugglega tekið innan við klukkustund að skella honum í, og þá er meðtalinn sá tími sem tók að taka til verkfæri og ganga frá (og spá og spöklera).
Þar sem að ég þekki Laredo-inn ekki vel þá á ég erfitt með að meta hvernig honum muni ganga upp kambana með kerru. Ég myndi skjóta á að honum ætti að ganga mjög vel, en það getur farið eftir ástandi vélar og skiptingar. Ef þú verður kominn með mælinn í áður en þú ferð þá þarft þú engar áhyggjur að hafa, þú fylgjist bara með honum og ef skiptingin fer að hitna óeðlilega mikið þá stoppar þú og lætur hana kólna (með bílinn í park og í gangi).
Ekki veit ég hvaða verkstæði er best í þessum bílum. Bíljöfur kom fyrst upp í hugann en það fer það orð af þeim að þeir eigi til að okra (og framkvæma viðgerðir sem ekki var beðið um). Ræsir voru með umboðið og hafa alltaf verið góðir, en þeir kunna eflaust að rukka fyrir.
Það stillingarverkstæði sem hefur hinsvegar reynst mér best er Bílastilling Björns Steffenssen. Verðinu er mjög stillt í hóf og vinnubrögðin hafa verið góð.
Bróðir minn fór með Cherokee til þeirra í fyrra og þeir gerðu það sem hægt var. Þeir sögðu honum þegar hann kom að TPS (throttle position sensor) skynjarinn væri orðinn slappur. Þegar hann slappast þá gefur hann röng skilaboð til tölvunnar um staðsetningu inngjafarspjaldsins. Það getur síðan leitt til að bíllinn drepi á sér eða rjúki upp á snúning.
Ég hef tvisvar farið með bíla til Björns og í bæði skiptin verið ánægður þegar ég gekk út. Hann gefur upp ákveðið verð (sem er mjög stillt í hóf) og það stendur (var þá 6500 kr. en það gæti hafa hækkað eitthvað á þessum árum sem liðin eru).
JHG