Til að byrja með þá vil ég taka það skýrt fram að Leó M veit oftast hvað hann er að segja, og er mjög fróður um bíla. Á síðu hans er margar mjög fróðlegar og skemmtilegar greinar.
Ég er sammála sumu sem hann segir í þessari grein en ekki öllu.
Í sambandi við stýrisganginn þá er það tanstangarstýrin sem honum virðist helst vera uppsigað við. Jeppamenn eru löngu búnir að skoða þetta vandamál.
Tækninefnd 4x4 kom með álit að Toyota Hilux þyrfti stýristjakk ef hann færi á 38" eða stærra. Mér skilst að skoðunarstöðvar fari eftir því áliti. Við jeppamenn erum ekki algjörir aular. Ef jepparnir okkar eru á einhvernhátt leiðinlegir þá tökum við á því. 4x4 er með tækninefnd sem áliktar um ýmis mál og hún hefur haft mikil áhrif á hvernig jeppabreytingar hafa þróast.
Í fyrra kom skýrsla um slys af völdum breyttra jeppa. Þar kom skýrt fram að þau eru miklu fátíðari en hjá öðrum bílum. Ef jepparnir eru svona hættulegir, erfitt að stýra þeim og síbrjótandi stýrisgang þá ætti hlutfallið að vera í hina áttina. Ég hallast að því að jeppamenn fari yfirleitt varlegar á jeppunum en aðrir ökumenn (hin skýringin væri að breyttir jeppar verði svona miklu öruggari ökutæki sem ég held að menn kaupi ekki).
Annað í sambandi við stýrisganginn. Hér á landi er hellingur af breyttum jeppum en maður heyrir aldrei af því að hlutar úr stýrisgang séu að brotna. Auðvitað getur það gerst, sérstaklega ef viðhald er trassað en þetta er allavegana ekki í fjölmiðlum daginn út og inn. Það má vera að jeppamenn hugsi betur um viðhald sinna bíla og skipti út áður en eitthvað gerist eða að Leó ýki vandamálið eilítið.
Púnkturinn hjá honum með EGR var mjög athyglisverður. Mér datt strax Datsun í hug en þeir eru frægir fyrir að eyðileggja heddin í kringum 100.000 km markið. Er skýringin kannski að menn eru að aftengja EGR og borgi fyrir það með styttri líftíma hedda. Ég held að Patról menn mættu skoða það.
En við verðum alltaf að skoða alla gagnrýni sem við fáum, stundum er verið að gera of mikið úr vandanum en stundum leynast þar gullmolar sem við meigum ekki við að missa af.
JHG