Luma ekki allir hér á einhverjum mistaka- og viðgerðasögum? Það eru jú oftast bestu ferðirnar þegar allt klikkar en það leysist úr þessu á endanum.
Svo ég byrji á einni af sjálfum mér þá var ég eitt sinn (sem oftar) að skipta um hjöruliðskross í afturskafti á Suzuki Fox. Ég setti bílinn samviskusamlega í gír og handbremsu og lagðist svo undir hann til að losa skaftið. Þegar skaftið losnaði þá rann helv… dósin af stað og ég lá þarna eins og bjáni undir henni (ógleymanleg tilfinning). Súkkan rann nú ekki langt því hann stoppaði á Galant sem einn fjölskyldumeðlimur átti. Sem betur fer lenti krókurinn á númersplötunni og ferðin var svo lítil að skemmdin var engin (nema sært stolt).
Ég hafði gleymt því að handbremsan er út í millikassa á súkkunni og það að losa drifskaft losar því um allar hömlur :)
Einn sem ég þekki notaði sleggju til að skorða millikassa á (að mig minnir) gömlum Wagoner (menn nota það sem þeir hafa í ferðum). Tveimur árum seinna var hann eitthvað að skríða undir bílinn og sér þá að sleggjan var ennþá á sínum stað, hann hafði þá gleymt þessari viðgerð og notað bílinn í ferðir og sleggjan hafði hangið.
Þá er komið að ykkur og munið að láta ekki góða sögu gjalda sannleikans :)
JHG