Væl, volæði og vanþekking á 38" Get ekki orða bundist eftir að hafa lesið fróðlega pistla í 35“ grein.

1. 44” dekk eru mjög mismunandi, þú getur lent á gangi sem er jafngóður og bestu radíaldekk, þú getur líka verið óheppinn með dekkjagang. Hugsanlega má draga úr hoppi með jafnvægisstillingu eftir hverja úrhleypingu og réttri ásetningu dekkja t.d. nota átaksskaft.


2. Það skiptir máli á hvernig bíl dekkin eru notuð. Gamall og slitinn Ford er ekkert mikið betri í akstri á 35“ en 44” ef allt draslið undir honum er í steik. Nýlegur, nýuppgerður Datsun, Toy eða jafnvel Ford á 44“ getur hinsvegar verið betri en nokkur fólksbifreið ef ekið er á möl eða í snjó.

3. Takmörkun hámarkshraða jeppa á + 35”. Jæja, slíkt dettur engum í hug sem hefur ekið vörubíl/rútu og svo aftur jeppa. Ef menn telja sig geta fært rök fyrir því að takmarka hámarkshraða breyttra jeppa t.d. vegna stöðvunarvegalengdar, þá er ég hræddur um að hámarkshraði + 10 tonna bifreiða þurfi að lækka ansi mikið.

4. Stórir jeppar hættulegri en önnur ökutæki? ? ? Hættulegri hverjum spyr ég? Margir telja að vegfarendum stafi meiri hætta af stórum jeppum en minni farartækjum. Samkvæmt sænskri könnun voru ÖKUMENN JEPPA í meiri slysahættu en aðrir ökumenn og vóg þar víst þungt að jepparnir eru stífari og hafa minna krumpusvæði en fólksbílarnir, sérstaklega átti það við um jeppa á grind.


5. Ökumaður sem tekur ekki tilit til aðstæðna, lélegra dekkja og ekur of hratt á 38"+ er hættulegur hvort sem hann er á jeppa eða ekki. Hefur ekkert með jeppa eða dekkjastærð að gera.

Að lokum:
Ökum af skynsemi og förum að andskotast til að sýna tillitsemi í umferðinni. Þeir sem vilja aka hægar en aðrir ættu að fá háar sektir ef þeir hundskast ekki til að hleypa öðrum vegfarendum fram úr sér og þeir sem vilja aka allt of hratt ættu að reyna að finna sér stað og stund þar sem engin umferð er, fara í rallý, kvartmílu eða þ.h.

Skiljum við landið eins og við komum að því, ökum ekki utan vega!